Þó stórviðburðum í tengslum við Eina með öllu hafi verið aflýst, þá er fjölbreytt dagská minni viðburða alla helgina á Akureyri.
Þrátt fyrir að stórviðburðum á fjölskylduhátíðinni Ein með Öllu hafi verið aflýst þá munu margir skemmtilegir minni viðburðir vera á Akureyri um Verslunarmannahelgina og rúmast þeir innan þeirra sóttvarnarreglna sem nú eru í gildi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vinum Akureyrar.

- Nóg verður um útivist og hreyfingu fyrir alla aldurshópa en helst má þar nefna fjallahlaupið Súlur Vertical og Hjólreiðahátíð Greifans.
- Kirkjutröppuhlaupið við Akureyrarkirkju verður á sínum stað og eru allir krakkar velkomnir og mun Hvolpasveitin mæta og hitta krakkana og allir fá gefins glaðning frá Ölgerðinni.
- AquaZumba með Þórunni Kristínu verður í sundlaug Hrafnagils og paramót á vegum líkamsræktarstöðva Norður AK verður haldið frá föstudegi til sunnudags.
- Rafhjólaklúbbur Akureyrar verður með Rafhjólaleikana 2021 og AKUREYRI.BIKE götuhjólaáskorunin verður haldin eins og undanfarin ár.
- Á flötinni fyrir neðan leikhúsið verður komið upp sannkallaðri fjölskylduflöt þar sem Sprell tívolí mun vera með opið til 23:30 alla dagana, Kastalar ehf. mæta með Nerfstríð, og hinir sívinsælu Vatnaboltar verða á staðnum . Kjörið að taka með sér teppi og leyfa börnunum að njóta sín í góða veðrinu.
- Handverks- og hönnunarmessu verður slegið upp í húsi Rauða krossins og hvetjum við fólk til að kíkja við og skoða skemmtilega hönnun og handverk.
- Húllaverksmiðja með Húlludúllunni verður fyrir krakkana í Kjarnaskógi og markaðsstemning verður á Ráðhústorginu þar sem margt skemmtilegt verður til sölu.
- Þá er ekki allt upp talið því Sambíóin ætla að vera með Verslótilboð á nýju Space Jam myndina og söfn bæjarins verða opin.
- Að sjálfsögðu verður opið í einum fallegasta skógi landsins, Kjarnaskógi. Hvað er betra en að njóta með fjölskyldu og vinum í góða veðrinu, smyrja nesti og nýta þessa fallegu náttúruaðstöðu innan bæjarmarka á Akureyri.

Allar nánari upplýsingar er að finna inn á heimasíðu Einnar með öllu www.einmedollu.is
Dagskráin er birt með fyrirvara um breytingar vegna hertra samkomutakmarkana og stöðu samfélagsins hverju sinni.