Alls bárust níu skriflegar athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi Miðbæjar suðurhluti Drottningarbrautarreitur en frestur til að skila inn athugasemdum rann út þann 7. febrúar sl. Einnig bárust undirskriftir frá á annað þúsund manns, sem mótmæltu fyrirhugaðri breytingu. Í bókun skipulagsnefndar kemur fram að undirskriftirnar hafi flokkast þannig: 1150 frá Akureyri, 358 utan Akureyrar, 61 ógild undirskrift eða röng kennitala, 72 tvískráningar. Skipulagsnefnd frestaði afgreiðslu málsins.
Svæðið sem deiliskipulagið nær til afmarkast af Drottningarbraut í austri, Kaupvangsstræti í norðri, lóð Akureyrarkirkju og Eyrarlandsvegi í vestri og lóðarmörkum Hafnarstrætis 65 og Austurbrú í suðri. Í tillögunni er gert ráð fyrir blandaðri byggð íbúða, verslunar, þjónustu og stofnana. Nýjar íbúðir verða meðfram Drottningarbraut og við Hafnarstræti. Einnig er gert ráð fyrir hótelbyggingu syðst á reitnum og nýrri aðkomugötu, húsagötu, samsíða Drottningarbraut.