Niðurstöður úr yfirferð á reiknilíkani Vaðlaheiðar- ganga væntanlegar

„Ég kvíði ekki niðurstöðunni og er fullviss um að hún verði nokkuð samhljóða okkar útreikningum,“ segir Kristján L. Möller þingmaður og formaður atvinnuveganefndar Alþingis um „óháða úttekt II,“  eins og hann kallaði nýja yfirferð sem unnið er að á vegum fjármálaráðuneytis á reiknilíkani vegna Vaðlaheiðarganga.

Kristján segir að niðurstaða hljóti að liggja fyrir á næstu dögum en gerir ekki ráð fyrir öðru en að hún verði nokkurn vegin samhljóða þeirri úttekt á arðsemi sem þegar lá fyrir. „Enda voru okkar sérfræðingar einnig óháðir og því á ég von á að niðurstaðan verði á svipuðum nótum og muni aðeins staðfesta það sem þegar lá fyrir.“

Kristján kveðst bjartsýnn á að unnt verði að hefja vinnu við gerð Vaðlaheiðaganga strax eftir áramót, en segir vissulega mjög slæmt að verkið hafi tafist um tvo mánuði vegna kröfu um annað „óháð“ mat á arðsemi ganganna.  Það muni þýða að landsmenn aki ekki um Vaðlaheiðargöng um verslunarmannahelgina 2015, eins og að var stefnt, heldur líklega mánaðamótin september október sama ár. „Það verður gott að aka um ný og upplýst göngin þennan vetur, hann verður víst mjög harður og snjóþungt á Víkurskarði!,“ segir Kristján.

 

Nýjast