Í bókun bæjarráðs kemur fram að ráðið tekur undir sjónarmið bréfritara í þessu máli og áréttar að bæjaryfirvöld hafa ítrekað gert athugasemdir við mikla skerðingu á byggðakvóta til Hríseyjar á undanförnum árum. Ljóst er að niðurskurður upp á 80% eða um 90 þíg tonn á 3 árum hefur haft mikil áhrif á atvinnuástand í byggðarlaginu. Jafnframt er ljóst að skerðingin er jafn mikil og raun ber vitni vegna sameiningar Akureyrar og Hríseyjar í eitt sveitarfélag. Í reglugerð um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga hefur á undanförnum árum verið kveðið á um hámarksskerðingu byggðakvóta til lítilla sveitarfélaga. Þetta ákvæði hefur ekki náð til byggðakvóta vegna Hríseyjar þar sem eyjan er hluti af stærra sveitarfélagi. Bæjarráð fagnar því að þessu ákvæði hefur nú verið breytt og að nú er talað um byggðarlag en ekki sveitarfélag í þeirri grein reglugerðarinnar sem hér um ræðir. Bæjarráð telur eðlilegt að byggðarlaginu Hrísey verði bætt sú skerðing sem það hefur orðið fyrir á undanförnum árum vegna þessa og felur bæjarstjóra að koma þessum sjónarmiðum á framfæri við sjávarútvegsráðherra.