Nemendur í Síðuskóla gefa jólagjafir til barna í Úkraínu

Nemendurnir undirbúa jólagjafirnar. Mynd/Akureyri.is
Nemendurnir undirbúa jólagjafirnar. Mynd/Akureyri.is

Krakkarnir í Síðuskóla á Akureyri stóðu í ströngu fyrr í vikunni við að pakka alls kyns nytsamlegum hlutum og leikföngum í skreytta skókassa. Vinna þeirra er hluti af alþjóðlega verkefninu "Jól í skókassa" sem miðar að því að fá börn jafnt sem fullorðna til að gleðja börn sem lifa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika í Úkraínu með því að gefa þeim jólagjafir í skókassa. Frá þessu er sagt á vef Akureyrarbæjar.

Haustið 2013 ákváðu umsjónarkennarar í 7. bekk Síðuskóla að vera með í verkefninu og hefur skólinn verið þátttakandi allar götur síðan. Verkefnið hefur fest sig í sessi í skólastarfinu og var ákveðið, að ár hvert yrðu það nemendur í 7. bekk og umsjónarkennarar þeirra sem héldu utan um verkefnið. Helga Dögg dönskukennari hefur yfirumsjón með verkefninu og stýrir því á hverju ári.

Síðuskóli hefur verið Grænfánaskóli frá því árið 2006 og fellur þetta verkefni vel að umhverfisstefnu skólans þar sem safnað er saman gjöfum í kassana frá nemendum og starfsfólki. Lögð er áhersla á að endunýta og finna það sem er nothæft, setja í kassana og gefa hlutunum nýtt hlutverk á nýjum slóðum. Nemendur sýna þessu verkefni áhuga, hluttekningu og finnst þetta skemmtilegt. Í byrjun nóvember fer hópurinn saman með gjafirnar í starfsstöð KFUM og KFUK.

Nýjast