„Þetta gengur einfaldlega ekki svona lengur,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir í Kisukoti sem hún rekur á heimili sínu við Löngumýri. Á nýliðnu ári komu 111 heimilislausir kettir í Kisukot, flestir þeirra hafa fengið heimili nú en enn eru nokkrir eftir enn þá þar sem verið er að kanna þeim betur inn á heimilislífið. Það er heldur fleiri kettir en hafa haft viðkomu i Kisukoti undanfarin ár.
Ragnheiður segir að inni í tölunni séu ekki kettir sem Kisukot hafi komið aftur til síns heima né þeir kettir sem komið hafi verið til aðstoðar á annan hátt. Nokkrum hafi verið hjálpað eftir ákeyrslur og farið með þá til dýralæknis auk þess sem kettir sem dáið hafi í kjölfar slysa, yfirleitt ákeyrslur hafi verið sóttir.
Ragnheiður rifjar upp að um ríflega tveggja ára skeið hafi verið reynt að ná samningum um styrk frá Akureyrarbæ vegna starfsemi Kisukots en bærinn ákveðið að ekki yrði af samningi heldur boðið upp á 500 þúsund króna eingreiðslu. Þó slíkt sé vissulega kærkomið sé það dropi i hafið miðað við þær upphæðir sem vinna Kisukots hafi sparað Akureyrarbæ á þeim 14 árum sem starfsemin hafi verið í gangi.
Þarf minnst 40 fermetra hús
„Það er fyrir löngu kominn tími á að Kisukot komist í sitt eigið húsnæði og vonandi verður eitthvað hægt að gera í slíku á nýju ári,“ segir Ragnheiður. Hún kveðst lengi hafa gælt við að setja upp eins konar húsnæði á lóð við húsið í Löngumýri. Hún þurfi í það minnsta um 40 fermetra hús, en slíkt rúmist ekki á lóðinni. „Ég er að skoða gámaeiningar núna, en kostnaður við 15 fermetra kostar um tvær milljónir.“