Nafni Reykárhverfis breytt í Hrafnagilshverfi

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar var tillaga skipulagsnefndar um að heiti Reykárhverfis verði breytt i Hrafnagilshverfi samþykkt. Í bókun skipulagsnefndar kemur fram að fjallað hafi verið um niðurstöður skoðunarkönnunar vegna málsins. Þátttaka í könnuninni var lítil en mikill meirihluti þeirra sem tóku afstöðu lýstu stuðningi við að breyta nafni Reykárhverfis í Hrafnagilshverfi. “Erfitt hefur verið að vinna nafni Reykárhverfis sess og gerir skipulagsnefnd það að tillögu sinni að nafni hverfisins verði breytt í Hrafnagilshverfi,” segir ennfremur í bókun skipulagsnefndar.

Á fundi sveitarstjórnar var jafnframt samþykkt tillaga íþrótta- og tómstundanefndar um að ráða Ingibjörgu Ó. Ísaksen í starf forstöðumanns íþróttamannvirkja, en Guðrún Sigurjónsdóttir hefur sagt starfi sínu lausu frá og með 1. mars. Ingibjörg Ólöf er íþróttafræðingur og býr að Örlygsstöðum í Eyjafjarðarsveit, en hún var valin úr hópi 27 umsækjenda.

Nýjast