Nemendur 4. bekkjar í Brekkuskóla á Akureyri, sem mættu í skólann í gær eftir sóttkví, þurfa að fara aftur í sóttkví næstu sjö daga eftir að kennari í skólanum greindist smitaður. Starfsmaðurinn var í smitgát og einkennalaus. RÚV greindi frá þessu.
Í gær kom í ljós að starfsmaðurinn, sem var í smitgát, greindist eftir seinna hraðpróf. „Því miður þá þurfa þeir nemendur sem loks komust í skólann í dag, aftur að fara í sóttkví. Búið er að skrá nöfn þeirra barna sem þurfa í sóttkví inn í kerfið og foreldrar þeirra væntanlega búnir að fá skilaboð frá rakningarteymi,“ segir í pósti sem foreldrar fengu frá skólastjórnendum í gær og RÚV greindi frá.
Alls eru 127 í einangrun á Norðurlandi eystra og 1.269 í sóttkví. Flest þeirra eru á Akureyri í tengslum við hópsmit sem komið hefur upp í bænum. Flest þeirra sem eru í einangrun eru krakkar á grunnskólaaldri.