Mótmæla niðurskurði til Náttúrustofu Norðausturlands

Rannsóknir á lífríki Mývatns hafa verið þáttur í starfsemi NNA. Mynd: Heiðar Kristjánsson.
Rannsóknir á lífríki Mývatns hafa verið þáttur í starfsemi NNA. Mynd: Heiðar Kristjánsson.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs er gert ráð fyrir tæplega 38% niðurskurði á fjárveitingum ríkisins til Náttúrustofu Norðausturlands. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps fjallaði um málið á síðasta fundi og þar kom fram að starfsemi Náttúrustofunnar hefur verið burðarstólpi í náttúrufarsrannsóknum í Þingeyjarsýslum í heild sinni, en á meðal verkefna hafa verið rannsóknir á lífríki Mývatns.

Þessi niðurskurður kemur án nokkurs fyrirvara eða samráðs við Náttúrustofuna eða sveitarfélögin Skútustaðahrepp og Norðurþing sem reka Náttúrustofuna í samstarfi við ríkið samkvæm lögum nr. 60/1992.

„Sveitarstjórn Skútustaðahrepps mótmælir harðlega boðuðum niðurskurði og ekki síst vinnubrögðunum sem setja starfsemi Náttúrustofu Norðausturlands í uppnám en þar starfa nú fimm manns. Það samræmist ekki gildandi samningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og Náttúrustofunnar um vöktunarrannsóknir í Þingeyjarsýslum sem á uppruna sinn í sértækum aðgerðum forsætisráðuneytisins árið 2008 til að efla byggð og samfélag á Norðurlandi eystra. Ef ekkert verður að gert við að leiðrétta fram komna tillögu blasa við uppsagnir starfsfólks og faglegt starf stofunnar sett í algjört uppnám.“

Segir í bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps.

Byggðarráð Norðurþings tók á fundi sínum heilshugar undir bókun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og mótmælir einnig  harðlega boðuðum niðurskurði. JS

Nýjast