Möguleikamiðstöðin er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Vinnumálastofnunnar, Vinnumarkaðsráðs og stéttarfélaga á svæðinu. Ætlunin er að sameina á einn stað upplýsingar um það sem í boði er á Akureyri fyrir fólk sem leitar nýrra tækifæra í námi og starfi. Á staðnum er bæði aðstaða til þess að lesa blöðin, fá sér kaffi og með því, spila pool, fara í borðtennis, spila eða fara í tölvurnar - svo eitthvað sé nefnt. Möguleikamiðstöðin mun eftir fremsta megni reyna að styrkja það fjölbreytta starf sem er nú þegar í boði í bænum, en auk þess bjóða upp á félagsaðstöðu, aðstoð, upplýsingagjöf, kynningar, fræðslu og hópastarf í jákvæðu andrúmslofti . Eins verða haldnar þar ýmsar gagnlegar kynningar. Starfsfólk miðstöðvarinnar mun veita fjölbreytta og einstaklingsmiðaða aðstoð af ýmsum toga, t.d. að hjálpa fólki að sækja um niðurgreiðslu vegna námskeiða, sækja um skólavist, fá upplýsingar um réttindi sín, miðla sjálfboðaliðastarfi, gera áætlun í atvinnuleitinni, aðstoða við gerð ferilskráa, spjalla o.s.frv.
Íslenskt samfélag gengur nú í gegnum erfiðan tíma og eru Akureyringar þar ekki undanskildir. Fjölmargir eru atvinnulausir eða í hlutastarfi, fólk úr öllum stéttum og atvinnugreinum er án vinnu. Það tekur á alla að missa vinnuna og erfitt er að reyna að finna aðra - sérstaklega í þessu árferði, þegar fá störf eru í boði. Flestum reynist, a.m.k. tímabundið, erfitt að halda í bjartsýnina og kraftinn. Þetta tímabil mun hins vegar líða hjá. Á meðan eigi flestir engra annarra kosta völ en að nýta tímann eins vel og mögulegt er og vera til í slaginn þegar að kemur. Það er ótrúlega margt í boði á Akureyri fyrir einstaklinga sem eru án vinnu eða í hlutastarfi. Möguleikarnir eru alls staðar, það ættu flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, segir m.a. í fréttatilkynningu.