Þegar Vilmundur Gylfason stofnaði Bandalag jafnaðarmanna, hreifst fólk um land allt af eldmóði þessa unga manns af Aragötunni. Húsvíkingar fóru ekki varhluta af þessu og var boðað til stofnfundar á Hótel Húsavík. Þar mættu að vísu aðeins átta manns, sjö karlmenn og að auki Snædís Gunnlaugsdóttir, hinn ljóshærði og undurfríði lögmaður á Sýsluskrifstofunni.
Eftir fundinn voru bæjarbúar fljótir að finna nafn á væntanlegt framboð Bandalags jafnaðarmanna í Norðurlandskjördæmi eystra, nefnilega Mjallhvít og dvergarnir sjö.
Því miður gekk það ekki eftir að Snædís færi fram og næði kjöri, en huggun harmi gegn að önnur vösk kona á Húsavík, Kolbrún Jónsdóttir, leiddi síðan listann og fór inn á þing. JS