Skipulagsráð leggur til að minnismerki um síðutogara sem fyrrverandi ÚA sjómenn hyggjast reisa á Akureyri verði staðsett á svæði við útivistarstíg meðfram Drottningarbraut, rétt norðan við svæði siglingaklúbbsins.
Endanleg ákvörðun um staðsetningu er vísað til bæjarstjórnar að undangenginni umfjöllun umhverfis- og mannvirkjaráðs. Skipulagsráð telur mikilvægt að endanleg útfærsla á staðsetningu og umhverfi minnismerkis verði unnin í samráði við skipulagssvið.
„Við sem að þessu verkefni stöndum vildum hafa minnismerkið suðvestan við Hof en um það náðist því miður ekki sátt í bæjarkerfinu,“ segir Sigfús Ólafur Helgason einn þeirra sem standa að gerð og uppsetningu minnismerkisins. „Ég er sannfærður um að á þeim stað myndi það sóma sér best, ekki bara fyrir okkur sjómenn heldur líka Akureyrarbæ. Saga síðutogaraútgerðar er merkileg hér í bæ og sjálfsagt að sýna henni virðingu.“
Sigfús segir að nefnd sem vinni í málinu meti það svo að úr því óskastaðsetning við Hof hafi ekki fengist megi segja að næst besti kosturinn sé sá staður sem bent er á við Drottningarbraut. „Vissulega hefði líka verið gaman að sjá minnismerkið á uppfyllingu nær Torfunefsbryggjunni, en það varð sátt um að staðsetja það þarna sunnan við trébrúna og út frá því erum við að vinna núna.“
Smíði minnismerksins er hafin, ljósahönunnin er klár og verið er að vinna að sögutexta sem settur verður á skilti við minnsmerkið. Þá segir Sigfús að verið sé að smíða kertastjaka fyrir friðarkerti sem hægt verður að tendra á ljós við minnisvarðann og þar verða einnig blómavasar. Eins unnið að því að fá fjámögnun á þremur bekkjum sem komið verður fyrir við minnismerkið. „Við stefnum að því að minnismerkið verði komið upp á haustdögum ef allt gengur samkvæmt okkar áætlunum,“ segir Sigfús.