Minningar úr sveitinni

Arnar Guðmundsson í fjárhúsinu í Árhvammi með hrútnum Móra   Myndir aðsendar
Arnar Guðmundsson í fjárhúsinu í Árhvammi með hrútnum Móra Myndir aðsendar

Arnar Guðmundsson ólst upp í Árhvammi í Öxnadal með foreldrum sínum og sex systkinum. Hann flutti síðar til Akureyrar um 16 ára aldur og bjó þar þangað til hann var um 27 ára. Þá færði hann sig austur á land með fjölskyldu sinni og settist að í Neskaupstað. Arnar býr þar með eiginkonu sinni, Ingibjörgu Þórðardóttur og eiga þau saman tvö uppkomin börn sem einnig búa í Neskaupstað. Arnar starfar þar sem kennari við Verkmenntaskóla Austurlands. Hann rifjar hér upp gamlar minningar úr sveitinni um hátíðirnar.

Í aðdraganda jólanna

„Við vorum alltaf komin frekar snemma í jólafrí úr skólanum. Þá var farið í það að undirbúa og þrífa allt en það var aldrei farið að skreyta fyrr en um 3-4 dögum fyrir jól og jólatréð, sem var lítið gervitré, var yfirleitt skreytt á Þorláksmessu. Mamma setti alltaf englahár á tréð því það átti að minna á einhvern snjó. Við skreyttum aldrei mjög mikið samt; settum upp aðventuljós og einstaka seríur og máttum setja seríur í okkar glugga ef við vildum. Svo var maður mikið í því að skipta bara um perur í loftljósinu hjá sér. Ná í rauða peru eða bláa, bara til að breyta aðeins litnum í herberginu.“

-Gerði fjölskyldan sér ferð til Akureyrar þegar kaupa þurfti jólagjafir?

„Pabbi var sá eini sem var með bílpróf, mamma var ekki með bílpróf. Þannig að við fórum öll alltaf saman í bæinn á einum bíl, þá þurfti að passa að aðrir sæju ekki hvað búið var að kaupa handa þeim.“

Vinnan heimafyrir á aðfangadag

Arnar rifjar upp hvernig aðfangadagur var í Árhvammi. Margt þurfti að gera áður en jólin gengu í garð og tóku allir þátt í því.

„Það var allt gert tiltölulega snemma á aðfangadag. Við vorum búin að fara í fjárhúsin klukkan fjögur, þá var allt sem þurfti að gera á bænum bara búið um fimm, hálf sex. Þá var farið í sturtu og allir gerðu sig tilbúna en oftast var aldrei borðað fyrr en klukkan sjö. Þegar við vorum búin að borða mátti ekki opna pakka fyrr en búið var að vaska upp. Alla mína tíð var spilað á orgelið og sungið Heims um ból áður en pakkarnir voru opnaðir. Ég tók svo við af pabba um 11-12 ára og lærði að spila á orgelið.“

-Söngurinn við orgelið var aðeins ein af mörgum hefðum í Árhvammi.

„Mesta stuðið var þó að hleypa til, fengitíminn er á þessum tíma. Reynt var að stilla því inn að sauðburðurinn myndi ekki byrja fyrr en um miðjan maí. Þá væri snjóinn farið að leysa og aðeins byrjað að hlýna. Þetta var hluti af jólunum okkar.

Þegar búið var að opna pakka mátti ekki spila spil. Ekki mátti spila tónlist ef maður fékk eitthvað slíkt í jólagjöf, það mátti kannski gera það á Jóladag. Maður mátti hins vegar lesa bók sem maður fékk að gjöf og svo var auðvitað borðað mjög mikið nammi það sem eftir var kvöldsins.“

Arnar klæddur í nýju jólagjöfina, sennilega árið 1985

Hátíðarmaturinn ferskur í minni Arnars

-Hefðirnar snerust þó einnig um mat og muna margir eftir því hversu vinsæl eplin voru um hátíðirnar.

„Á aðventunni keyptu mamma og pabbi alltaf stóran eplakassa, um 18 kíló af eplum. Þau voru afgreidd í risastórum kössum og voru til alla aðventuna og fram að jólum. Svo voru auðvitað mandarínur líka.

Oftast var hamborgarhryggur á aðfangadag en í seinni tíð, þegar ég var orðinn unglingur, var farið að prófa að sleppa svíninu og taka léttreyktan lambahrygg í staðinn. Oftast var hryggurinn keyptur í búð en hangikjötið var yfirleitt heimaslátrað og var allt kjöt reykt heima. Mamma sá alveg um það. Það var lítill reykingakofi á túninu svo við mamma þurftum að bera kjötið þangað, seinna var þó kominn reykingakofi nær húsinu og ekki langt að fara.“

Hefðir í seinni tíð

-Aðspurður hvort hann héldi ennþá í einhverjar hefðir sagðist Arnar alltaf reyna að halda í eitthvað úr æskunni. Þegar hann flutti austur með konunni sinni, Ingibjörgu, þá blönduðust hins vegar margar hefðir saman sem hann var ekki vanur.

„Í dag finnst mér við vera mjög mikið að reyna að halda í hefðir þótt við brjótum þetta upp annað slagið. Við hugsum okkur að hafa eitthvað aðeins öðruvísi þessi jól eða sleppa einhverju þessi jól, en við erum alltaf að reyna að halda í einhvers konar sterkar hefðir eins og að hittast að borða yfir hátíðirnar.

Það var ekki mikið um að fólk væri að heimsækja aðra á aðfangadagskvöld, það tíðkaðist ekki í þá daga. Það mátti eiginlega ekki neitt en þegar ég kom inn í fjölskyldu Ingibjargar eftir að við fluttum austur, var það þannig að þegar búið var að opna pakkanna, þá þurftu allir að drífa sig yfir til tengdaforeldra minna. Mér fannst það mjög skrítið þar sem ég var alls ekki vanur því. Það hefði aldrei verið í boði á æskuheimilinu að fólk færi af stað í heimsóknir á aðfangadagskvöld.

Brúna tertan með kremi er líka algjört jóla fyrir mér. Mamma bakaði hana alltaf og sendi mér sneið eftir að ég flutti að heiman. Þegar hún var hætt að geta bakað, þurfti maður sjálfur að fara að reyna. Það hefur gengið upp og ofan og verður aldrei eins gott og hjá mömmu.“

Helena Lind Ólafsdóttir/HLÓ

Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.

Nýjast