Minniháttar breytingar á leiðakerfi SVA

Farþegum með strætó heldur áfram að fjölga.
Farþegum með strætó heldur áfram að fjölga.

Nú áramótin voru gerðar minniháttar breytingar á leiðakerfi Strætisvagna Akureyrar, SVA. Að sögn Stefáns Baldurssonar forstöðumanns SVA, er breytingarnar tilkomnar vegna þess að farþegum hefur fjölgað mikið og að erfiðlega hefur gengið komi fólki til vinnu á réttum tíma á morgnana. Stefán segir að verið sé að flýta tímanum á öllum leiðum um 7 mínútur fram til kl. 10.00 á morgnanna en eftir það er farið aftur á þann tíma sem nú er í gangi.

Hann segir að leiðir 1 og 2 hafi oft verið stífar og þá sérstaklega leið 1 og því verða gerðar breytingar á þeim. “Við fellum niður akstur um Mýrarveg og Hamarsstíg en förum þess í stað beint niður Þingvallastræti. Þessar tvær götur, Mýrarvegur og Hamarsstígur, hafa oft tafið okkur svolítið og við vinnum tíma með því að sleppa þeim. Það hefur verið lítið um að fólk noti vagnana í Hamarsstíg, á leið 1, talning sem gerð var sl. vetur staðfestir það. Þá erum við að fella niður akstur um Grenivelli, Norðurgötu og Grænugötu. Þarna hafa verið mjög fáir farþegar og jafnframt er seinfarið þarna um, auk þess sem oft er erfitt að komast úr Grænugötu og inn á Glerárgötu, sem veldur töfum og gerir erfiðara með að ná tengingu á milli vagna.”

Stefán segir að í staðinn verði ekið suður Hjalteyrargötu, sem nýtist bæði vinnustöðum og þeim sem búa á neðri hluta Eyrarinnar. Fólk í erfi hluta Eyrarinnar geti vonandi nýtt sér vagnana á Glerárgötu. Á leið 2 verður örlítil breyting, þannig að aksturshringnum í Glerárhverfi er breytt. “Við vorum að fara tvisvar á klukkutíma sitt hvorn hringinn á leið 2 en breytum því og förum sama hringinn í báðum ferðum, þ.e. sólarsinnis. Með því losnum við við að skera umferðina á gatnamótum Skarðshlíðar og Borgarbrautar en það hefur stundum reynst okkur nokkuð erfitt. Við teljum að þessar lagfæringar ættu að verða flestum farþegum til bóta og sérstaklega þeim sem eru að sækja vinnu á morgnanna.”

Stefán segir að verið sé að setja upp nýtt upplýsingakerfi í tenglsum við Strætó í Reykjavík. “Við komust inn á straeto.is, sem er rafrænt upplýsingakerfi sem notendur hér geta nýtt sér til að finna bestu möguleikana. Einnig hefur ný leiðabók verið borin inn á hvert heimili og nýjar og betri upplýsingar settar á biðstöðvar. Það er til mikilla bóta og þetta kerfi er með sömu uppsetningu og notuð er í Reykjavík og víðast hvar í Evrópu, í sambandi við lestar og aðrar almenningssamgöngur.” Byrjað var að aka eftir þessum breytingum í morgun, 2. janúar.

 

 

Nýjast