Minn besti árangur til þessa

Hafdís Sigurðardóttir. Mynd: Gunnlaugur Júlíusson.
Hafdís Sigurðardóttir. Mynd: Gunnlaugur Júlíusson.

„Þetta var alveg frábært og framar mínum björtustu vonum,“ segir Hafdís Sigurðardóttir  frjálsíþróttakona frá UFA. Hafdís náði frábærum árangri á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var í Laugardalshöll sl. helgi og vann í öllum þeim fimm greinum sem hún keppti í. Lið UFA bar sigur úr býtum í kvennaflokki í 4x400 m boðhlaupi þar sem Hafdís hljóp lokasprettinn, en auk þess vann hún einstaklingsverðlaun í 60, 200 og 400 m hlaupi og langstökki. Með henni í sigursveit UFA í boðhlaupinu voru Agnes Eva Þórarinsdóttir, Heiðrún Dís Stefánsdóttir og Rakel Ósk Björnsdóttir. „Ég held að þetta sé minn besti árangur á móti hérna heima. Að vinna fimm Íslandsmeistaratitla er eitthvað sem maður gerir ekki á hverju móti,“ segir Hafdís, sem saknaði helsta keppinautar síns um helgina, hlaupakonunar Hrafnhildi Eir Hermóðsdóttur úr ÍR, en hún átti ekki heimangengt vegna meiðsla. Hafdís bætti einnig persónulega árangur sinn í öllum hlaupagreinunum og var nálægt sínum besta árangri í langstökkinu. Þá vildi það skemmtilega til að Hafdís fagnaði 25 ára afmæli sínu á seinni keppnisdeginum. „Þessir titlar voru því fínar afmælisgjafir fyrir mig og gerðu góðan dag ennþá betri,“ segir Hafdís.
Bíður og vonar
Hafdís eygir möguleika á að keppa fyrir Íslands hönd á HM í mars næstkomandi. Þar myndi hún keppa í 400 m hlaupi en Frjálsíþróttasamband Íslands mun velja einn karl og eina konu til þátttöku á mótinu. Það mun hins vegar ekki koma í ljós fyrr en á næstu vikum hvort Hafdís verður fyrir valinu. „Ég verð bara að bíða og sjá. Ég veit að ég á möguleika á að fara og það yrði mjög spennandi verkefni að takast á við. Ég þarf ekki að ná neinu lágmarki til þess að komast á mótið og get því lítið annað gert en beðið eftir því að það verði hringt í mig,“ sagði Hafdís. Fleiri keppendur UFA gerðu fína hluta á MÍ. Heiðrún Dís Sigurðardóttir varð í öðru sæti í 800 m hlaupi, Kolbeinn Höður Gunnarsson var annar í 400 m hlaupi, Örn Dúi Kristjánsson hafnaði í þriðja sæti í þrístökki og Ásgerður Jana Ágústsdóttir varð í þriðja sæti í hástökki. Af árangri UMSE á mótinu má nefna að Kristján Godsk Rögnvaldsson varð í þriðja sæti í 800 m hlaupi. Í liðakeppni sigraði ÍR með 38.991 stig, FH varð í öðru sæti með 23.264 stig og UFA varð í þriðja sæti með 11.617 stig. UMSE hafnaði í sjöunda sæti með 4.633 stig en alls kepptu þrettán félög á mótinu.

Nýjast