Hann kom þó engum vörnum við á 38. mínútu leiksins þegar Albert Ástvaldsson kom gestunum yfir er hann fékk boltann inn í teig KA- manna og skoraði í bláhornið og Afturelding komið með eins marks forystu í leiknum. Sú forysta var þó skammvinn því það tók heimamenn einungis þrjár mínútur að jafna leikinn og það gerði ungverjinn David Disztl er hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu frá Dean Martin.
Staðan 1-1 í hálfleik.
Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti líkt og þann fyrri. Á 50. mínútu fengu gestirnir dauðafæri er þeir fengu frítt skot inn í teig heimamanna en skotið var slakt og Sandor í marki KA átti ekki í vandræðum með að verja. Fjórum mínútum síðar fengu heimamenn dæmda vítaspyrnu, nokkuð sem gerist ekki á hverjum degi hjá KA því þetta var fyrsta vítaspyrnan sem þeir fá dæmda í leik í tæplega tvö ár. David Disztl tók spyrnuna og skoraði af öryggi og kom KA í 2-1.
Eftir markið fóru heimamenn að færa sig framar á völlinn og Haukur Heiðar Hauksson átti fínan sprett að marki gestanna á 58. mínútu er hann spólaði sig í gegnum vörn Aftureldingar en skotið var slakt og beint á markvörð gestanna. Eftir þetta fengu KA- menn nokkur ágætis færi til þess að bæta við mörkum í leiknum en fleiri urðu mörkin hinsvegar ekki og lokatölur á Akureyrarvelli, 2-1 sigur KA.
KA- menn halda sér með sigrinum í kvöld í toppbaráttu 1. deildarinnar og eru komnir í 26 stig í þriðja sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins verður útileikur gegn Haukum sem eru í öðru sæti deildarinnar, fimm stigum fyrir ofan KA. Það er því algjör lykilleikur framundan fyrir KA- menn á Ásvöllum nk. þriðjudag.