Njáll Trausti segir að um 430 sjúklingar hafi verið fluttir árlega með sjúkaflugflugi frá landsbyggðinni til Reykjavíkur á undanförnum árum og þar af hafi um helmingur þeirra verið í lífshættu, eða um alls 2.000 manns á einum áratug. Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum um miðjan nóvember sl., með 11 samhljóða atkvæðum, tillögu Njáls Trausta varðandi Reykjavíkurflugvöll. Samkvæmt tillögunni var bæjarstjóra m.a. falið að láta vinna skýrslu um afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta sér Akureyrarflugvöll að Reykjavíkurflugvöllur verði lagður af í núverandi mynd. Sérstaklega verði litið til öryggissjónarmiða, sem og efnahagslegra áhrifa við gerð skýrslunnar.
Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir að verkefnið sé í undirbúningi. "Það hafa nokkur fyrirtæki og ein stofnun haft samband sem vilja vinna þessa vinnu fyrir okkur. Meðal annars þess vegna skiptir máli að vanda allan undirbúning, því við vitum að niðurstaða þessarar vinnu verður umdeild sama hver hún verður," segir Eiríkur Björn.
Allir borgarfulltrúar á móti
Njáll Trausti segir að þetta mál tengist hverri einustu fjölskyldu í landinu með einum eða öðrum hætti. "Fyrir mér er þetta grundvallarmál og mér finnst hafa vantað svolítið upp á að barist sé fyrir því af krafti að flugvöllurinn verði þarna áfram í óbreyttri mynd. Þess vegna lagði ég fram þessa tillögu í bæjarstjórn um að ráðist yrði í að gera skýrsluna. Í framhaldinu verði haldin fundur um þessi mál og þá líka með borgaryfirvöldum, til að opna augu þeirra fyrir þessu mikilvæga máli. Það er enginn að tala með Reykjavíkurflugvelli í borgarstjórn Reykjavíkur og allir 15 borgarfulltrúarnir eru á móti flugvellinum."
Njáll Trausti segir að nýtingarhlutfallið á flugvellinum í Reykjavík sé í dag um 99%. "Ein austur vestur flugbraut í Reykjavík myndi þýða að nýtingarhlutfallið færi í 85% og jafnvel neðar og þar með væru forsendur fyrir flugrekstri brostnar." Hann bendir jafnframt á að ef Akureyri missti flugsamgöngurnar, yrði það mesta högg sem bæjarfélagið gæti orðið fyrir í einni svipan. "Við erum nógu einangruð og fyrir fjölda fyrirtækja og atvinnurekstur í bænum yrði það mikið áfall."