Mikill fjöldi fólks á þrettándagleði Þórs

Íþróttafélagið Þór stóð fyrir síðbúinni þrettándagleði og brennu við Réttarhvamm í kvöld, í samstarfi við Akureyrarstofu og bauð félagið öllum bæjarbúum á gleðina endurgjaldslaust. Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs var ánægður með hvernig til tókst en mikill fjöldi fólks mætti á svæðið, þar sem í boði var fjölbreytt dagskrá.  

Kveikt var í brennu, jólasveinar heilsuðu upp á börnin og tóku lagið, tröll og púkar létu öllum illum látum og álfakóngur og álfadrottning mættu á svæðið. Danshópurinn Vefarinn dansaði fyrir gesti og Heimir Bjarni Ingimnarsson tók lagið. Dagskránni lauk svo með glæsilegri flugeldasýningu í boði verslunarinnar Bónus. Þrettándagleði Þórs féll niður á síðasta ári og sagði Sigfús að sú ákvörðun hafi fallið í grýttan jarðveg, ekki síst hjá yngstu kynslóðinni. Því var ákveðið að prófa að vera með þrettándagleðina við Réttarhvamm og tókst það miklum ágætum.

Nýjast