Mikil sala á bílum og ferðatækjum á Akureyri

Sala á bílum og ferðatækjum hefur gengið vonum framar á bílasölum á Akureyri það sem af er sumri, eftir niðursveiflu sl. vetur. „Salan hefur verið mjög góð hjá okkur í notuðum bílum og það er mikið líf," segir Haukur Ármannsson hjá Toyota Akureyri.  

„Þetta er svona að verða líkara því sem var í gamla daga, fyrir 10- 12 árum,  það er rólegt yfir veturinn en mikil sala yfir sumartímann. Það er hinsvegar afar lítil sala á nýjum bílum hjá okkur en notaðir bílar seljast vel. Svo er mikil sala á ferðatækjum, það virðast allir hafa gaman af því að ferðast um landið. Fólk leitar mikið til okkar vegna allskyns vagna, sala á þeim gengur vonum framar og við vonum bara að sumarið lifi sem lengst," segir Haukur.

Birgir Birgisson hjá Bílasölu Akureyrar, tekur í svipaðan streng og segir sölu góða það sem af er sumri. „Það er brjáluð sala hjá okkur, bæði í notuðum bílum og nýjum. Það er verið að lækka verð á nýjum bílum hjá okkar umboðum og mikil viðbrögð við því." Birgir segir einnig að góð sala sé ferðatækjum og eru hjólhýsin sérstaklega vinsæl hjá landanum. „Við höfum aldrei selt jafnmikið af hjólhýsum og í ár og svo hafa fellihýsin verið að seljast svipað og undanfarin ár," segir Birgir.

Nýjast