Miðaldadagar að Gásum

Hinn forni Gásakaupstaður vaknar til lífsins næstu daga en frá 18.-21. júlí nk. verða þar haldnir miðaldadagar, undir yfirskriftinni; Ferð inní fortíðina. Opið verður frá kl. 11-17 á morgun laugardag og á sunnudag og frá kl. 12-16 mánudag og þriðjudag. Gásir eru 11 km fyrir norðan Akureyri, við Hörgárósa og voru helsta inn- og útflutningshöfn Norðlendinga um árhundraða skeið.   

Á Miðaldadögum, rétt eins og til forna hópast kaupmenn, handverksmenn og iðnaðarmenn saman í búðum á Gásum til að versla við erlenda kaupmenn, kaup- og ráðslaga við hvern annan og náttúrulega sýna sig og sjá aðra. Þátttakendur koma frá Akureyri, Danmörku, Hafnarfirði, Akranesi, Þingeyri, Búðardal og víðar.

Gestir geta fylgst með og átt viðskipti við slynga Gásakaupmenn. Hægt er að taka þátt í margskonar athöfnum, s.s. bogfimi, knattleik, steinakasti í "Örlygsstaðabardaga" , slöngvuvaðsfimi og steypt fagra muni úr tini. Gásavölvan spáir í rúnir, brennisteinn verður hreinsaður., bókfell unnið og er þá fátt eitt upp talið.

Aðgangseyrir er 1000 krónur,  250 kr. fyrir 13 ára og yngri og frítt fyrir þá sem eru minni en miðaldasverð. Miðinn gildir alla dagana. Á mánudag og þriðjudag er ókeypis aðgangur fyrir vinnuskólakrakka í Eyjafirði í boði Gásakaupstaðar ses.

Nýjast