Menningarráð Eyþings úthlutar styrkjum til menningarverkefna

Menningarráð Eyþings úthlutar  í dag 2. febrúar 21,5 milljón króna til menningarstarfs á starfssvæði Eyþings við hátíðlega athöfn í Hlíðarbæ, Hörgársveit kl. 17.00. Þetta er í áttunda sinn sem úthlutað er styrkjum samkvæmt samstarfssamningi um menningarmál milli mennta- og menningarmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaga í Eyþing. Ávarp flytur Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður Eyþings. Við sama tækifæri verður sagt frá samstarfi Menningarráðs við fjölmiðlafræðideild Háskólans á Akureyri. Við athöfnina verða viðstaddir styrkþegar menningarráðs, sveitarstjórnarmenn og gestir.

Menningarráðið leggur jafnan áherslu á að þau verkefni sem hljóta styrki efli á einhvern hátt samstarf og/eða samvinnu í menningarmálum á Norðurlandi eystra eða dragi fram menningaleg sérkenni svæðisins.  Áherslur við úthlutun þessa árs eru meðal annars verkefni sem stuðla að samvinnu atvinnumanna í listum, listnema og leikmanna, verkefni sem hvetja til samvinnu ólíkra þjóðarbrota í samstarfi við Íslendinga, verkefni sem efla þekkingu og fræðslu á sviði menningar og lista og verkefni sem efla atvinnustarfsemi á sviði menningar og lista.

Samstarf ríkis og sveitarfélaga í Eyþing

Hinn 27. apríl 2007 undirrituðu öll sveitarfélögin í Eyþing samstarfssamning um  menningarmál. 15. apríl 2011 voru undirritaðir nýir menningarsamningar við ríkið um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu til þriggja ára. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga í Eyþing við slíkt starf í einn farveg.

Menningarráð Eyþings

Menningarráð Eyþings er sjálfstætt ráð kosið af fulltrúum sveitarfélaga á samstarfssvæðinu. Hlutverk ráðsins er að standa fyrir öflugu þróunarstarfi í menningarmálum, hvetja til samstarfs og faglegra vinnubragða og stuðla að almennri vitund og þekkingu um málaflokkinn. Menningarráð Eyþings úthlutar fjármagni til menningarverkefna á starfssvæðinu samkvæmt samningi ríkis og sveitarfélaga í Eyþing um menningarmál og hefur eftirlit með framkvæmd þess samnings.

Nýjast