Oddvitar flokkanna þriggja sem mynduðu meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar síðustu fjögur ár segjast munu byrja á því að tala saman og kanna hvort þeir nái að semja um áframhaldandi samstarf næstu fjögur ár. Þetta sögðu þau öll í samtali við blaðamann Morgunblaðsins og mbl.is í nótt. Listi fólksins, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin héldu öll tveimur mönnum í bæjarstjórn.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson hélt áfram sem oddviti Framsóknar, en oddvitar hinna framboðanna koma nýir inn í bæjarstjórn, Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu og Halla Björk Reynisdóttir, L-lista, sem sat reyndar í bæjarstjórn 2010 til 2014 en gaf ekki kost á sér fyrir fjórum árum, mbl.is segir frá
D-listi Sjálfstæðisflokksins fékk flest atkvæði, eða 1.998 og þrjá bæjarfulltrúa. L-listinn, sem er bæjarlisti Akureyrar fékk næstflest atkvæði, 1.828 og tvo fulltrúa.
Framsóknarflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn á Akureyri og fékk 1.530 atkvæði og tvo bæjarfulltrúa kjörna. Samfylkingin fékk einnig tvo fulltrúa og 1.467 atkvæði. Vinstrihreyfingin grænt framboð fékk 820 atkvæði og einn fulltrúa, Miðflokkurinn fékk einnig einn fulltrúa og 707 atkvæði og Píratar fengu 377 atkvæði og engan fulltrúa kjörinn.
9.083 kusu sem er 66,3% kjörsókn og 13.708 voru á kjörskrá. Auð og ógild atkvæði voru samtals 356.