Katrín Ásbjörnsdóttir, leikmaður Þórs/KA, verður klár í slaginn með liðinu þegar Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu hefst um miðjan maí. Katrín meiddist á æfingu með landsliðinu á Algarve Cup í Portúgal á dögunum og var jafnvel óttast að hún yrði lengi frá. Myndatökur hafa hins vegar leitt í ljós að meiðslin eru minniháttar.
Það kom í ljós að ég er með tognað innra liðband. Þetta eru góðar fréttir en læknarnir óttuðust að liðþófinn væri rifinn. Svo var ekki sem betur fer og ég reikna með að byrja að æfa á fullu eftir nokkrar vikur, sagði Katrín í samtali við Vikudag. Katrín gekk í raðir Þórs/KA í haust eftir að hafa leikið lykilhlutverk með KR undanfarin ár.