Kristján segir að veiðarnar séu úr marokkóskum kvóta sem Samherji hafi tryggt sér og að þær muni
standa yfir til jóla í það minnsta. “Verður maður ekki að vona að það verði einhver loðnuvertíð í vetur
þó hún hafi nú ekki verið merkileg í fyrra,” segir Kristján aðspurður um hvað framhaldið verið hjá Margréti eftir
áramótin. Hann bendir á að engin síldveiði verði í haust vegna sýkingarinnar sem kom upp í síldarstofninum og
því sé brugðið á þetta ráð til að finna ný verkefni fyrir skipið. Sama áhöfn verður á skipinu og verið
hefur, en Kristján segir að veiðarnar við Marokkó muni ekki bæta upp þann rekstrarskaða sem verður vegna sýkingarinnar í síldinni
hér.
Þetta verkefni hjá Margréti EA hefur ýmsar hliðarverkanir og þannig hefur Sæplast á Dalvík selt um 200 fiskikör til Marokkó, sem
munu fara með Margréti og sömuleiðis hafa vélsmiðjur á svæðinu framleitt vinnslulínur fyrir fiskvinnslu í Marókkó sem munu
líka fara með skipinu. Nú síðdegis var verið að skipa körunum og vinnslulínunum um borð í Margréti, en aðspurður um hvort
hér væri um framtíðarmöguleika að ræða fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki kvaðst Kristján lítið vilja
fullyrða um það, en þarna væru ákveðnir möguleikar þó svo að þetta tiltekna verkefni væri tímabundið.