Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, kom inn á félagslífið í skólanum í ræðu sinni við brautskráningu rúmlega 100 nemenda skömmu fyrir jól. Hún sagði afar mikilvægt að haldið sé vel utan um félagslíf nemenda. VMA hefur náð að halda úti öflugu félagslífi þar sem nemendur hafa skemmt sér án áfengis og vímuefna, eitthvað sem er sérstakt fyrir framhaldsskólana á Akureyri og horfa margir framhaldsskólar til okkar í forvarnarmálum og félagslífi nemenda.
Í VMA hefur sem betur fer ekki myndast hefð þar sem eldri nemendur taka að sér yngri nemendur sem felst m.a. í því að standa fyrir heimboðum eða skemmtunum úti í bæ þar sem áfengi er haft um hönd. Þetta er skemmtanahald sem skólarnir hafa staðið hálfráðþrota gagnvart og erfitt að eiga við þær hefðir. Það er hluti af framhaldsskólalífinu að hittast oggerasér glaðan dag saman. Ég vona að framhaldsskólanemendur framtíðarinnar haldi því áfram því þessi tími á að vera skemmtilegur. Hinn gullna meðalveg verður að hafa að leiðarljósi og þeir einstaklingar sem velja að skemmta sér án áfengis eða annara vímuefna eiga að geta skemmt sér án pressu frá félögunum. Þau viðhorf viljum við í VMA hafa í heiðri.
Sigríður Huld leiðir skólastarfið í VMA þetta skólaárið, í eins árs námsleyfi Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara. Hún sagðist vera stolt af því að vera fyrsta konan sem gegnir skólameistaraembætti hér á Akureyri. Ég er ekki síður stolt af því að vera fyrsti skólameistari VMA sem hefur útskrifast frá þessum góða skóla. Sömu sögu er að segja um Benedikt Barðason aðstoðarskólameistara, sem er einnig útskrifaður frá VMA.