Ljósin tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi að viðstöddu fjölmenni

Akureyringar létu það ekki á sig fá þótt kalt hafi verið í veðri og fjölmenntu í miðbæinn í gær þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi. Tréð er gjöf frá Randers, vinabæ Akureyrar í Danmörku. Fjölbreytt dagskrá var í boði, þar sem jólasveinar og tröllastrákarnir Lápur og Skrápur léku stórt hlutverk.  

Dagskráin hófst með fallegum jólatónum frá Big Bandi Tónlistarskólans á Akureyri. Lápur og Skrápur stígu svo á svið til að kynna dagskrána. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri flutti ávarp en það var  Lasse Reimann sendiherra Dana á Íslandi sem færði Akureyringum jólatréð formlega að gjöf fyrir hönd bæjaryfirvalda í Randers. Það var svo Isak Godsk Rögnvaldsson sem tendraði ljósin.  Þá var komið að jólasveinunum Bjúgnakræki, Kertasníki og Kjötkróki, sem tóku nokkur lög og þá söng Æskulýðskór Glerárkirkju einnig nokkur lög undir stjórn Ástu Magnúsdóttur. Að lokinni dagskrá á Ráðhústorgi var haldið niður á Torfunefsbryggju, þar sem Becromal, Norðurorka og Rafeyri kynntu framlag sitt til verkefnisins; Brostu með hjartanu. Í Vaðlaheiðinni var kveikt á risastóru hjarta, á stærð við knattspyrnuvöll, við mikinn fögnuð viðstaddra.

Nýjast