Vel gekk að bora í Vaðlaheiðargöngum í síðustu viku en göngin lengdust um 20 m og eru orðin alls 6.826,5 m, eða 94,7% af heildarlengd. Eftir er að bora 379,5 m. Eyjafjarðarmegin er áfram unnið stuttum færum, alls 7,5 metrar þessa vikuna. Þá segir á Facebook-síðu Vaðlaheiðarganga að setið á stafni hafi farið minnkandi og benda könnunarholur til þess að setið sé að hverfa næstu 15 metra.
„Von er að framvinda aukist við það að komast í betra berg og hægt verði að fara lengri í einu en núna,“ segir á Facebook-síðunni. Fnjóskadalsmegin var mikið yfirbrot í þaki þar sem farið var í gegnum misgengi og gangasniðið ólíkt því sem það á að vera. „En nú síðustu daga hafa aðstæður skánað. Von er því að afköst aukist næstu daga. Einnig er unnið í vegagerð meðfram Illugastaðarvegi og biðjum við vegfarendur að fara varlega og virða vinnustaðamerkingar.“