Tinna bauð hópinn velkominn og hélt erindi um sögu Þjóðleikhússins. Þrjú ný leikverk voru skrifuð fyrir Þjóðleik, leikskáldin sem sömdu leikverkin mættu á svæðið og kynntu fyrir hópnum hugsjónina á bak við verkin. Það voru þau Brynhildur Guðjónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson sem rituðu nútíma ævintýrið Iris. Kristín Ómarsdóttir skapaði ævintýraheim í verkinu Hafmeyjan stóra og Jón Atli Jónasson ritaði um íslenskan veruleika í verkinu, Mold.
Farin var kynnisferð um Þjóðleikhúsið baksviðs, þar sem skoðuð var aðstaða leikara og förðunarrýmið var tekið út. Í sýningum leikhússins eru hárkollur mikið notaðar, mikill kláði í fingrum gerði vart um sig í hópnum þegar hárkollurnar voru skoðaðar, en enginn var þó staðinn að verki við að máta höfuðbúnaðinn. Þegar hópurinn gekk inn á stóra sviðið tók á móti honum ljósameistarann Lárus Björnsson, en hann sýndi hvernig hægt er að skapa mismunandi stemmningu og áherslur með lýsingu. Sviðsmaðurinn Þráinn Sigvaldason sagði frá starfi sínu og ábyrgð og yfirmaður leikmunadeildar Trygve Eliassen sýndi og fjallaði um leikmuni og leikmynd. Það er óhætt að segja að hópurinn hafi fengið mikla fræðslu frá þeim félögum þar sem þeir sýndu og sögðu frá sínu starfi í leikhúsinu. Auk þess var rætt var um starfsemina í leikhúsinu, gildi samstarfs og hugmyndavinnu í leikhúsi. Þórhallur Sigurðsson leikstjóri tók síðan á móti hópnum í lok dags og ræddi um hlutverk leikstjóra, vinnuferli og skipulag æfingaferils.
Á laugardagskvöldinu bauð Þjóðleikhúsið hópnum í leikhús á Finnska hestinn sem frumsýnd var síðastliðin föstudag. Óhætt er að segja að enginn ætti að láta þessa bráðfyndnu sýningu framhjá sér fara. Seinnihluti námskeiðsins fór fram í aðalbyggingu Þjóðleikhússins í svokölluðum Málarasal. Fyrripartinn kenndi Vigdís Jakobsdóttir hópnum gagnlegar upphitunaræfingar og leiki. Seinnipartinn var farið í senuvinnu, þar sem unnið var með stuttar senur úr verkunum þremur. Í senuvinnu kom skýrt í ljós hversu auðvelt er að túlka eina senu á mismunandi hátt, með mismunandi áherslum. Óhætt er að segja að námskeiðið hafi farið vel fram og að þátttakendur hafi allir tekið virkan þátt í að gera námskeiðið líflegt og lærdómsríkt.