Lestur er bestur

Lestur er bestur, er yfirskrift bókasafnsdagsins sem verður haldinn á morgun, þriðjudaginn 17. apríl. Það er Upplýsing, Félag bókasafns- og upplýsingafræða, sem í samvinnu við bókasöfn í landinu gengst fyrir deginum. Um 100 bókasöfn um allt land taka þátt í deginum að þessu sinni. Hvert safn fyrir sig skipuleggur sína dagskrá og verður fjölbreytt og mismunandi dagskrá á söfnunum. Í fyrra var tekinn saman listi yfir 100 bestu íslensku bækurnar sem starfsfólk bókasafna mælir með að allir lesi. Í ár hefur verið tekinn saman listi yfir 100 bestu barnabækurnar að mati bókasafnsfólks. Allt yndislegar bækur sem flestir hafa lesið sjálfir eða fyrir börnin sín. Í tilefni af bókasafnsdeginum og sumardeginum, hefur starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri tekið fram fjöldann allan af bókum sem starfsfólkið mælir með að allir lesi í sumar. Sumar þeirra eru af fyrrgreindum listum, aðrar eru gömul eða ný eftirlæti starfsfólksins. Boðið er í heimsókn á Amtsbókasafnið og ef einhverjir vilja mynd af sér með eftirlætis lesefnið sitt eru meiri líkur en minni á að starfsfólkið geti uppfyllt þá ósk.

Undirbúningsnefndin stóð fyrir þremur sameiginlegum verkefnum:

1) Stuttmyndasamkeppni framhaldsskólanema

2) Ljósmyndasamkeppni Upplýsingar

3) Einnig var besta barna- og unglingabókin valin af starfsfólki bókasafna

Úrslitin í þessum verkefnum verða kynnt á Morgunkorni Upplýsingar sem verður haldið í Þjóðarbókhlöðunni að morgni þriðjudagsins 17. apríl, kl. 8:30.

 

Nýjast