Lestur á Vikudegi eykst um 35% á milli ára og nær blaðið til tæplega 38% bæjarbúa á Akureyri. Í hverri viku lesa eða fletta 5000 manns blaðinu. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri framkvæmdi fyrir Vikudag. Spurt var: Hefur þú lesið eða flett Vikudegi á síðustu sjö dögum?
Fyrir ári mældist lestur á blaðinu 28% og tekur því stökk á milli ára.
„Þetta eru mjög ánægjulegar niðurstöður og sérstaklega í ljósi þess að Vikudagur er áskriftarblað,“ segir Þröstur Ernir Viðarsson ritstjóri blaðsins. „Tölurnar sýna styrk blaðsins og mikilvægi þess að halda úti staðarmiðli í bænum. Fólk vill fá fréttir úr nærsamfélaginu. Blaðið er á réttri leið, við erum að sinna okkar skyldum sem fjölmiðill með því að halda lesendum upplýstum um gang mála í bæjarfélaginu í bland við mannlífsefni og viðtöl við áhugavert fólk,“ segir Þröstur.
Í aldurshópnum 61 árs eða eldri nær blaðið til tæplega helmings bæjarbúa eða 46%. Tæplega 40% bæjarbúa á aldrinum 46-50 ára lesa blaðið vikulega, rúm 35% fólks á aldrinum 31-45 ára og 16,4% á aldrinum 18-30 ára.