Lengri opnunartími skemmtitstaða um verslunarmannahelgina

Bæjarráð Akureyrar samþykkti á fundi sínum í morgun, að verða við beiðni frá Vinum Akureyrar um að opnunartími skemmtistaða verði lengdur um verslunarmannahelgina. Einnig var veitt leyfi til að efna til áfengislausra unglingaskemmtunar fyrir 16 ára og eldri á laugardagskvöldi frá kl. 23:00 til 03:00. Gert er ráð fyrir því að boðið verði upp á strætisvagnaferðir heim strax að unglingaskemmtuninni lokinni líkt og verið hefur.  

Vinir Akureyrar óskuðu eftir því að skemmtistaðir fengju leyfi til að hafa opið til kl. 03:00 aðfararnótt föstudags og til kl. 05:00 aðfararnótt laugardags, sunnudags og mánudags. Með vísan 25. gr. í lögreglusamþykkt fyrir Akureyrarkaupstað samþykkti bæjarráð að heimila veitingastöðum skv. flokki III að hafa opið um verslunarmannahelgina sem hér segir: Aðfararnótt föstudags til kl. 03:00, aðfararnótt laugardags og sunnudags til kl. 05:00 og aðfararnótt mánudags til kl. 04:00. Bæjarráð telur ekki rök fyrir að auka opnunartíma aðfararnótt mánudags frekar en heimilt er í lögreglusamþykktinni á almennum frídögum. Bæjarráð vekur athygli á nýsamþykktum reglum um unglingadansleiki.

Nýjast