Leikfélag Akureyrar sýnir leikritið Falið fylgi í Finnlandi

Úr hafinu rís landið" er nafnið á hátíð sem tileinkuð er íslenskri menningu og verður haldin í Vasa í Finnlandi 16.-28. apríl nk. Leikfélagi Akureyrar hefur verið boðið að koma og sýna "Falið fylgi" eftir Bjarna Jónsson á hátíðinni. LA frumsýndi Falið fylgi, í leikstjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar í janúar sl. og gekk sýningin fyrir fullu húsi fram í mars.  

Á Íslandshátíðinni verða íslenskar myndlistarsýningar, íslenskir rithöfundar kynna verk sín,  Friðrik á Friðrik V mun kynna íslenska matarhefð, Stefán Sturla, leikstjóri, sem búsettur er í Vasa mun frumsýna Bláa hnöttinn eftir Andra Snæ Magnason í Borgarleikhúsinu í Vasa og leikmyndina hannar Vignir Jóhannsson myndlistarmaður sem einnig á verk á myndlistarsýningu í borginni. Tónlistarmenn úr Caput hópnum munu frumflytja íslensk verk ásamt Sinfóníuhljómsveit Vasaborgar undir stjórn Guðna Franzsonar. Sýndar verða íslenskar kvikmyndir og mun Baltasar Kormákur halda fyrirlestur um kvikmyndir sínar. Margt fleira mun verða á döfinni og má segja að borgin verði lituð af íslenskri menningu þessa daga. Verndari og heiðursgestur hátíðarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands. Leikhópur Leikfélags Akureyrar heldur utan þann 16. apríl og sýnir Falið fylgi í Wasa leikhúsinu 19. og 21. apríl.

Nýjast