Leiguverð hækkar á Akureyri

Leiguverð hefur hækkað á Akureyri í ljósi töluverðrar eftirspurnar eftir húsnæði.
Leiguverð hefur hækkað á Akureyri í ljósi töluverðrar eftirspurnar eftir húsnæði.

Leiguverð hefur hækkað á Akureyri í ljósi töluverðrar eftirspurnar eftir húsnæði. Frá ágúst 2016 til ágúst 2017 hækkaði leiguverð á fermetra fyrir þriggja herbergja íbúð um 5%. Hækkunin var hins vegar mun meiri á árinu 2016. Ef tekið er dæmi af tveggja herbergja íbúð þá, hækkaði fermetraverðið frá 2015 til 2016 um 12,5% en minna fyrir aðrar gerðir íbúða.

Þetta kemur fram í skýrslu Íbúðalánasjóðs um fasteignamarkaðinn á Akureyri.

Ef horft er til þeirra leigusamninga sem voru gerðir í nóvember sl. þá nam fermetraleiga á tveggja herbergja íbúð á Akureyri 2.308 krónum á fermetra. Það er sambærileg leigufjárhæð og á Suðurnesjum og ekki mikið lægri en leiga á fermetra fyrir sambærilega íbúð í Breiðholti og á svæði sem afmarkast af Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi. Meðalfermetraverð á Akureyri fyrir tveggja herbergja íbúð frá janúar til nóvember 2017 var rétt rúmlega tvö þúsund krónur á fermetra.

Fyrir þriggja herbergja íbúð var verðið átján hundruð krónur á fermetra og á 4ra­5 herbergja íbúð var verðið rúmlega fimmtán hundruð
krónur á fermetra. Í skýrslunni kemur einnig fram að heldur hafi dregið úr ásókn í leiguhúsnæði á Norðurlandi á undanförnum misserum. Mest var eftirspurn eftir leiguhúsnæði árið 2011 en minni eftirspurn hefur verið eftir leiguhúsnæði á Norðurlandi árin 2016 og 2017.

„Í ljósi þess að kaupendamarkaður hefur tekið við sér ásamt því að fyrstu kaupendur hafa í auknu mæli sótt inn á markaðinn þá er þetta eðlileg þróun,“ segir í skýrslunni.

Nýjast