Leggur til að Sögufélag Eyfirðinga gefi jarða- og ábúendatal út á vefnum

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar var rætt um styrkbeiðni frá Sögufélagi Eyfirðinga vegna útgáfu ritsins, Eyfirðingar framan Glerár og Varðgjár, en það er jarða- og ábúendatal. Eftir er að gera nafnaskrá, en að öðru leyti er ritið tilbúið til prentunar en ritið yrði í 6 bindum. Áætlaður kostnaður við prentunina er kr. 16.250.000 og mun Sögufélagið ekki hefja prentun fyrr en loforð hafa fengist fyrir allri upphæðinni. Auk Eyjafjarðarsveitar hefur verið óskað eftir styrk frá fjórum öðrum aðilum. Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að þrekvirki hafi verið unnið við samantekt þessa rits sem nær aftur til manntalsins 1703. Ómæld vinna hefur farið í gagnaöflun og ritun og eru þeim sem unnu að rituninni þökkuð óeigingjörn störf.
Sveitarstjórn hefur áhyggjur af því að ekki náist að safna allri upphæðinni á skömmum tíma og beinir því til Sögufélagsins að athuga gaumgæfilega hvort ekki sé ástæða til að gefa ritið út á veraldarvefnum. Þetta væri metnaðarfull og nútímaleg aðferð og öðrum til eftirbreytni. Á þann hátt yrði efnið aðgengilegt fyrir alla og myndi nýtast vel við alls kyns rannsóknarvinnu, skólaverkefni, kynningarstarfsemi o.s.frv. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar er tilbúin að styðja myndarlega við uppsetningu á slíkum vef. Ekki væri verið að útiloka bókaútgáfu síðar en meiri líkur á að efnið komi fyrir almenningssjónir fyrr með þessum hætti.

Nýjast