Legg áherslu á að fólk geti tekið einföld skref í átt til betri heilsu

Jónína Benediktsdóttir heldur fyrirlestur á Hótel Kea á Akureyri í dag. Mynd: RAX
Jónína Benediktsdóttir heldur fyrirlestur á Hótel Kea á Akureyri í dag. Mynd: RAX

Jónína Benediktsdóttir heilsuræktarfrömuður heldur fyrirlestur á Hótel Kea á Akureyri í dag sunnudag kl. 16.00, undir yfirskriftinni; Í form á 40 dögum. Jónína hefur sent frá sér 80 síðna vinnubók; Í form á 40 dögum og með henni fylgir DVD diskur með 5 fyrirlestrum og einnig CD diskur með hugvekju og uppörvunarfyrirlestrum sem og djúpslökun. Jónína verður með klukkutíma fyrirlestur um það hvernig við getum á einfaldan hátt læknað okkur og fyrirbyggt lífsstílsjúkdóma eins og sykursýki 2, háþrýsting, húðsjúkdóma, þunglyndi, kvíða, síþreytu og fleira og fleira. “Þessi vitndarvakning er lífsnauðsynleg til þess að að lækka hér lyfjakostnað en Íslendingar bruddu lyf fyrir 30 milljarða á síðasta ári.”

Jónína segist hafa unnið við heilsurækt í 30 ár og því ákveðið að ráðast í þessa útgáfu. Þar sé að finna á einfaldan hátt allt það efni sem hún hefur verið að miðla til fólks á þessum áratugum. Efnið sé aðgengilegt og fyrir alla fjölskylduna. “Það sem einkennir vinnubókina eru hversu auðvelt er vinna þessi verkefni og það geta allir gert. Ég legg áherslu á að þekkingin skipti máli og að fólk geti tekið einföld skref í átt til betri heilsu. Einnig legg ég áherslu á þessa pólsku meðferð, sem ég hef verið að vinna við í sjö ár, þannig að fólk fari að skilja detox meðferð rétt og líti ekki á hana sem einhverja galdra. Detox er þekkt fyrirbæri og þýðir fasta, eða hreinsun og nú erum við að hefja páskaföstuna en það er 40 daga fasta fyrir páska. Þar af leiðandi er kjörið tækifæri fyrir fólk að taka þessi skref með okkur í þessari fræðslu. Þetta er mikið námsefni og fyrirlestrarnir eru um erfðir, umhverfi, hugarfar, hreyfingu og mataræði.”

Konur borða meiri sykur

Jónína segir að íslenska þjóðin sé ekki aðeins að verða sú feitasta, heldur séum við líka að verða fárveik og það sé alvarlegra. “Maður getur dröslast með aukakílóin mjög lengi og lifað ágætis lifi en þegar þunglyndi, kvíði og lífstílssjúkdómar eins og sykursýki 2, hjarta- og æðasjúkdómar og krabbamein aukast sífellt, þrátt fyrir velmegun, þá þurfum við að fara hugsa okkar gang. Það er ekki nóg að þykjast vera miklar vitsmunaverur en haga sér svo eins hálfvitar. Matvælaiðnaðurinn gerir allt til þess að framleiða ódýrari vöru, selja hana dýrt og til þess eru notuð gerviefni og það eru 50 þúsund gerviefni í matvælum, sem eru samþykkt af matvælaeftirliti. Sykur kallar á meiri sykur, sem skapar mikla vanlíðan til lengri tíma og gerir okkur hálf galin. Samkvæmt rannsóknum borða konur meiri sykur en karlar en karlar borða meira kjöt og feitmeti. Það sem gerist, er að þetta hefur gríðarleg áhrif á líðan kvenna og þið þekkið það karlarnir þegar konurnar sveiflast upp og niður í skapinu. Þetta er ekki fyrirtíðarspenna, hún er ekki til, þetta er hálfgerð geðveiki vegna sykurneyslu. Ég fer vel yfir þetta á fyrirlestrunum og þeir eru ekki síður góðir fyrir karla, þetta eru karllægir fyrirlestrar, af því ég vorkenni ykkur, alla vega ykkur sem eigið eiginkonur.”

Verðum að staldra við

Jónína segir að vinnubókin, sem fæst í Hagkaup, hafi vakið mikla athygli og þá hefur verið gríðarleg aðsókn að fyrirlestrum hennar. “Ég var með yfir 300 manns á Grand Hótel einn laugardaginn, þannig að það er vitundarvakning í gangi. Þessir fyrirlestrar eru fyrir alla fjölskylduna, því svona hugarfarsbreytingar þurfa að byrja innan veggja heimilisins. Maður borðar ekki það sem ekki er til. Ég kenni fólki venjulegt mataræði og sjálf get ég  ekki lifað án þess t.d. að borða lambakjöt, feita osta, rjómaost og smjör sem dæmi. En það breytir því ekki að við verðum aðeins að staldra við,” segir Jónína.

Hún ætlar ekki aðeins að halda fyrirlestur á Akureyri, þvi á morgun mánudag, heldur Jónína fyrirlestur í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík kl. 20.00 og þriðjudaginn 28. febrúar á Gistiheimilinu Tröllaskaga á Siglufirði kl. 20.00.

 

Nýjast