Laufabrauðssetur opnað á Akureyri

Hugrún Ívarsdóttir opnaði Laufabrauðssetur að Strandgötu 43 á Akureyri á dögunum. Hugrún hefur í nokkur ár framleitt vörur sem byggja á laufabrauðshefðinni. Hún sagðist hafa verið svo heppin að fá styrk í vor til þess að stíga það skref að opna sína eigin verslun og laufabrauðssetur.  

"Hér ætla ég að vera með allar þær vörur sem ég hef verið að framleiða og einnig ætla ég að bjóða ferðamönnum upp á matartengda upplifun. Ég verð með litlar laufabrauðskökur til smakka, hangikjöt og malt og appelsín." Hugrún segir að Íslendingar þekki þessa hefð og ekki þurfi að kynna hana sérstaklega fyrir þeim en að það sé alveg sérílenskt að skreyta brauð með þessum hætti og þekkist ekki annars staðar. Hugrún byrjaði að gera kort fyrir nokkrum árum og hún segir að þau seljist mest sem hugmyndabæklingur fyrir laufabrauðsgerð. Í framhaldi af því kom hún fram með bækling með fleiri munstrum og sérvíettur og svo vefnaðinn og hefur verið að bætast við hann. "Þetta hefur fengið alveg frábærar viðtökur og þess vegna heldur maður áfram og það nýjasta er að opna þetta laufabrauðssetur."

Hugrún býr á efri hæð hússins að Strandgötu 43, sem hefur verið í eigu fjölskyldu hennar frá því það var byggt og þar er hún einnig með vinnustofu.

Nýjast