Landsbankinn mun á næstu vikum efna til átta opinna funda um allt land til að eiga samræður við viðskiptavini og samfélagið um stöðu bankans, stefnu hans og framtíð. Á síðasta ári stóð Landsbankinn fyrir níu slíkum fundum sem ríflega 800 manns sóttu. Að þessu sinni verður, auk þess að fjalla um málefni bankans, lögð megináhersla á atvinnusköpun og frumkvæði í atvinnulífinu og með í för verða Nýsköpunarsjóður og fulltrúar ungra og spennandi fyrirtækja sem fjalla munu um reynslu sína af uppbyggingu á síðustu árum. Fyrirtækin eru úr ýmsum greinum og endurspegla fjölbreytni í nýsköpun í landinu.
Landsbankinn mun á þessu ári leggja þunga áherslu á fjóra þætti í starfsemi sinni og verða þeir kynntir á fundunum. Landsbankinn hefur skilgreint sig sem hreyfiafl í atvinnulífi og vill beita sér af krafti fyrir uppbyggingu á því sviði, bankinn vill auka við og efla upplýsingagjöf og vera opinn banki, starfsmenn vilja veita framúrskarandi persónulega þjónustu og síðast en ekki síst hafa Landsbankanum verið sett háleit markmið um innleiðingu samfélagslegrar ábyrgðar í daglegri starfsemi. Fyrsti opni fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 14. febrúar á Sauðárkróki. Síðan verða haldnir fundir í Fjarðabyggð, Reykjanesbæ, Kópavogi, Snæfellsbæ, á Ísafirði, Selfossi og loks á Akureyri miðvikudaginn 29. febrúar.
Þau fyrirtæki sem þátt munu taka í fundaröð bankans eru; m.a. Valorka (þróun sjávarhverfla til orkuframleiðslu - www.valorka.is), Gagnavarslan (ráðgjöf á sviði upplýsingavörslu - www.gagnavarslan.is), Atlantik (ferðaþjónusta - www.atlantik.is), Grindavík Experience (ferðaþjónustuklasi - www.grindavik-experience.is), Ferðaþjónustan Mjóeyri (mjoeyri.is), Kerecis (lækningavörufyrirtæki - www.kerecis.is), Steinunn (fatahönnun - www.steinunn.com), kvikmyndafyrirtækið Caoz (framleiðslufyrirtæki á sviði teiknimynda - www.caoz.is), framleiðslufyrirtækið Saltverk (framleiðsla á kristalsjávarsalti - www.saltverk.is) og Sjávarleður (framleiðsla á hágæða fiskileðri - www.atlanticleather.is) og fleiri munu bætast í hópinn, segir í fréttatilkynningu.