Landssamtök landeigenda á Íslandi (LLÍ) ætla að fjalla um vernd eignarréttarins og áformuð inngrip í eignarréttinn á málþingi að loknum aðalfundi sínum á Hótel Sögu næstkomandi fimmtudag, 16. febrúar. Aðalfundurinn hefst kl. 13.00 og gert er ráð fyrir að málþingið hefjist kl. 15:00, að aðalfundarstörfum loknum. Tveir gestir flytja framsöguerindi um umræðuefni dagsins á málþinginu: Róbert Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, fjallar um vernd eignarréttar samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu og rétt landeigenda. Karl Axelsson hæstarréttarlögmaður fjallar um heimildir almenna löggjafans til inngripa í stjórnarskrárvarin eignarrétt landeigenda og hversu langt verði gengið í þeim efnum. Landssamtök landeigenda velja sér framangreind umræðuefni ekki síst í tilefni tillagna stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá Íslands, þar sem gert er ráð fyrir að gengið sé freklega á eignarrétt sem varinn er í núgildandi stjórnarskrá. Samtökin hafna slíkum hugmyndum og hafa m.a gert stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis grein fyrir sjónarmiðum sínum. Aðalfundur og málþing landeigenda eru öllum opin og eru landeigendur sérstaklega hvattir til að mæta.
Landssamtök landeigenda á Íslandi (LLÍ) voru stofnuð í janúar 2007 til að berjast fyrir því að eignarréttur landeigenda að jörðum þeirra og landareignum sé virtur við framkvæmd laga um þjóðlendur á Íslandi, í samræmi við verndarákvæði eignarréttarins í stjórnarskrá Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu. Samtökin beita sér gegn því að gengið sé á rétt landeigenda við setningu laga og reglugerða eða með framkvæmd valdheimilda og beita sér sömuleiðis gegn því að gengið sé á rétt landeigenda við opinberar framkvæmdir. Allir landeigendur á Íslandi eiga rétt til aðildar að samtökunum, hvort sem um er að ræða einstaklinga, lögaðila eða sveitarfélög.