Í nýrri skýrslu Vísinda- og tækniráðs eru lagðar til tvær ólíkar leiðir til einföldunar á háskólakerfinu í landinu. Í leið 1 lagt til að háskólum landsins verði fækkað úr sjö í fjóra. Eftir breytingarnar yrðu tveir opinberir háskólar og tveir sjálfstæðir skólar. Í tillögum ráðsins um einföldun stofnana og háskóla er lagt til að Háskóli Íslands og Landbúnaðarháskóli Íslands sameinist í einn opinberan háskóla og Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum í annan. Sjálfstæðir háskólar verði tveir: Listaháskóli Íslands og sameinaður skóli Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Bifröst. Starfseiningar þessa fjögurra nýju háskóla eru byggðar á núverandi háskólum. Þetta myndi festa í sessi háskólastarf á landsbyggðinni, þar sem þungamiðja háskóla yrði áfram á Akureyri. Þessi leið er auðveld og myndi valda lítilli röskun. Áfram yrðu kraftarnir þó töluvert dreifðir, miðað við stærð landsins, og rekstrarformin enn ólík.
Í leið 2 er lagt til að fjöldi háskóla yrði óbreyttur en byggju allir við sama rekstrarform, þ.e. allir háskólar yrðu reknir sem sjálfseignarstofnanir. Ef tekin yrði sú ákvörðun að breyta háskólum í sjálfeignarstofnanir ætti að skoða hvort sú leið gæti einnig hentað rannsóknastofnunum. Ákvörðun um háskóla sem sjálfseignarstofnanir felur í sér að ábyrgðin á verkaskiptingu þeirra og sameiningar yrði sett á háskólana sjálfa. Líklegur ávinningur er að enn frekari breytingar á verkaskiptingu og enn skjótvirkar sameiningar næðust fram með þessari ákvörðun heldur en með leið 1.