Stjórn lífeyrissjóðsins Stapa ákvað á fundi sínum nýlega, að legga til, við ársfund sjóðsins sem haldinn verður á Egilsstöðum á morgun þriðjudag, að áunnin réttindi verði lækkuð um 7,5%. Stjórn sjóðsins telur rétt að stíga verulegt skref til að jafna mun á eignum og skuldbindingum, með því að lækka réttindi. Réttindi sjóðfélaga munu alltaf ráðast af eignum á hverjum tíma og lítil innistæða er fyrir loforðum um réttindi, sem eru talsvert hærri en eignir standa undir. Að mati stjórnarinnar er því réttara að jafna þennan mun að mestu nú, fremur en að ferðast með hann inn í framtíðina, sem bitnar á þeim sem nú eru virkir greiðendur, segir á vef Stapa.
Vegna samspils á milli tekna frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins verður skerðing á tekjum lífeyrisþega mun minni en nemur lækkun á greiðslum frá sjóðnum. Áhrifin hafa verið reiknuð út fyrir sjóðinn. 76% sjóðfélaga er að fá undir 100 þúsund í lífeyri frá lífeyrissjóði á mánuði. Stærstur hluti þessa hóps mun fá lækkun á lífeyri frá sjóðnum að fullu eða mestu leyti bætta frá TR. Útreiknuð meðal skerðing á þessum hópi yrði 124 kr. á mánuði. Hærri tekjuhópar skerðast meira, en skerðingin er þó innan við 2% í tekjuhæsta hópnum.