Á fundi stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar fyrir helgi, var farið yfir niðurstöður útboðs á gluggaskiptum í Lundarskóla. Alls bárust fjögur tilboð í verkið og voru þau öll undir kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á rúmar 16 milljónir króna. L og S verktakar ehf. á ættu lægsta tilboðið, rúmar 10,3 milljónir króna, eða 64% af kostnaðaráætlun. Stjórn FA samþykkti að ganga til samninga við lægstbjóðanda um verkið. Trésmiðja Kristjáns átti næst lægsta tilboðið, rúmar 10,4 milljónir króna, eða 65%, ÁK smíði bauð rúmar 11,5 milljónir króna, eða 72% og Þorsteinn Jökull bauð rúmar 12 milljónir króna, eða 75% af kostnaðaráætlun.
Á fundi stjórnar FA var áframhald á umræðum um að flýta framkvæmdum við miðjurými Naustaskóla og lagt fram minnisblað frá Gunnari Gíslasyni fræðslustjóra Akureyrarbæjar og Ágústi Jakobssyni skólastjóra Naustaskóla með rökstuðningi málsins. Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar samþykkti að ganga til samninga við SS Byggi ehf um lúkningu á miðjurými skólans á grundvelli fyrirliggjandi einingarverða.