Óvenjulegir tónleikar verða haldnir í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri við Eyjafjörð annað kvöld, fimmtudag, kl. 20.30. Verkefnið heitir Kveldúlfur,sem er vel við hæfi því stórfyrirtækið Kveldúlfur rak síldarverksmiðjuna á Hjalteyri í tæplega þrjátíu ár um miðja síðustu öld. Nú er þar listaverksmiðja. Á tónleikunum verður leikið á átta sekúndna eftirhljóm verksmiðjunnar sem minnir á hljóminn í stærstu dómkirkjum veraldar. Tónleikarnir eru þó ekki kirkjutónleikar og heldur ekki jólatónleikar.
Hér leiða saman hesta sína kammerkórinn Hymnodia, Sigurður Flosason saxófónleikari, Harald Skullerud, slagverksleikari frá Noregi, og hin samíska söngkona Ulla Pirttijärvi sem syngur joik að hætti Sama. Eyþór Ingi Jónsson, stjórnandi Hymnodiu, leikur líka á harmóníum og fleiri hljóðfæri. Flutt verður tónlist sem tengist kvöldi og nóttu.
Spuni verður áberandi og má búast við tilkomumiklum og frumlegum hljóðheimi þar sem blandast saman hefðbundinn kórsöngur, þjóðlagatónlist, djassaður spuni og framsækin gjörningatónlist. Dagana eftir tónleikana verður hljóðrituð plata með þessari tónlist og nú stendur yfir áheitasöfnun á Karolinafund til þess að fjármagna þetta sérstæða verkefni.