Kröfu um ógildingu á breytingu á deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar hafnað

Vínbúðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Vínbúðin á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Akureyrar frá 21. júní 2011 um að breyta deiliskipulagi norðurhluta mið­bæjar Akureyrar er tekur til lóða við Hólabraut og Laxagötu. Jafnframt er hafnað kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsstjóra Akureyrar frá 12. október 2011 um að samþykkja byggingarleyfis­umsókn fyrir viðbyggingu að Hólabraut 16. 

Það voru eigendur fasteigna við Hólabraut og Laxagötu sem kærðu breytingu á deiliskipulagi og að byggingarleyfi hafi verið gefið fyrir viðbyggingu við Hólabraut 16, þar sem Vínbúðin er til húsa. Í niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarnefndar segir: “Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu voru lóðir markaðar auk þess sem byggingarreitir og nýtingarhlutfall hverrar lóðar var ákvarðað í stað eins byggingarreits og nýtingarhlutfalls fyrir umræddan reit í heild í eldra skipulagi.  Þá voru lóðir að Gránufélagsgötu 1-3 og 5, sem nýttar hafa verið undir bílastæði, sameinaðar lóðinni að Hólabraut 16, viðbygging heimiluð við fasteign lóðarhafa hinnar sameinuðu lóðar og breytingar gerðar á skipulagi umferðar á svæðinu.  Af málatilbúnaði kærenda verður ráðið að fyrst og fremst sé deilt um heimilaða viðbyggingu að Hólabraut 16, með vísan til þess að hún festi rekstur vínbúðar í sessi á staðnum, með tilheyrandi ónæði og óþægindum fyrir íbúa í nágrenninu. 

Hugmyndir að hinni kærðu breytingu á deiliskipulagi lóða við Hólabraut og Laxagötu var kynnt á íbúafundi, breytingartillagan síðan auglýst til kynningar og húsakönnun gerð.  Að lokinni kynningu var tillagan tekin fyrir í skipulagsnefnd, sem bókaði svör við fram komnum athugasemdum og lagði til við bæjarstjórn að hún samþykkti deiliskipulags­breytinguna, sem hún og gerði.  Verður að telja að bæjarstjórn hafi með samþykkt sinni fallist á svör við fram komnum athugasemdum í fyrirliggjandi bókun skipulags­nefndar.  Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er ekki skylt að taka saman lýsingu þá á skipulagsverkefni, sem fjallað er um í 1. mgr. 40. gr. laganna, þegar um er að ræða breytingu á deiliskipulagi.  Var því ekki þörf á samantekt slíkrar lýsingar við meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, sem að öðru leyti virðist hafa verið farið með í samræmi við ákvæði 40. - 43. gr. um meðferð deiliskipulagsákvarðana  í skipulagslögum.” 

Ennfremur segir í niðurstöðu nefndarinnar: “Kærendur vísa til þess að umdeild breyting á skipulagi og fyrirhuguð nýbygging hafi umtalsverð grenndaráhrif gagnvart þeim eignum sem næst standi hinni nýju byggingu.  Þegar þess er gætt að nýtingarhlutfalli nýrrar sameinaðrar lóðar nr. 16 við Hólabraut er í hóf stillt og að um miðbæjarsvæði er að ræða verða þessi áhrif þó ekki talin meiri en íbúar gátu vænst. Nokkrar breytingar eru gerðar á skipulagi umferðar á svæðinu sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á umferðarflæði þar, svo sem með því að ákvarða einstefnu um Laxagötu og loka Hólabraut til norðurs.  Þá er þess ekki að vænta að heimilaðri viðbyggingu að Hólabraut fylgi aukin umferð í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir að þjónustusvæði verslunarinnar stækki vegna breytingarinnar. 

Að öllu framangreindu virtu eru ekki fyrir hendi þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem leiða eigi til ógildingar hennar.  Þá verður að telja að lögmætar ástæður hafi búið að baki skipulagsbreytingunni.  Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.  Að þessari niðurstöðu fenginni telst hið kærða byggingarleyfi eiga stoð í gildandi deiliskipulagi og þar sem ekki verður séð að það sé haldið ágöllum er varði form þess eða efni verður kröfu kærenda um ógildingu þess einnig hafnað.”

 

 

Nýjast