Kristján Þór Júlíusson alþingismaður í Norðausturkjördæmi, gefur kost á sér sem annar varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem kosinn verður á flokksráðsfundi þann 17. mars næstkomandi í Kópavogi. Hann er sá fjórði sem gefur kost á sér en Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, og Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, hafa einnig lýst yfir framboði í embættið. Kristján Þór stýrði Framtíðarnefnd Sjálfstæðisflokksins, sem vann að breytingum á skipulagi og innra starfi flokksins og voru tillögur nefndarinnar samþykktar á síðasta landsfundi. Meðal breytinga var aukin upplýsingagjöf til flokksfólks, innleiðing beins lýðræðis og í raun var allt starf innan flokksins opnað þannig að flokksfólk fær aukna möguleika á aðkomu að ákvarðanatöku og stofnunum flokksins, eins og segir í yfirlýsingu Kristjáns Þórs.
Sjálfstæðisfólk hefur flest orðið vart við fyrstu breytingarnar en nú gefst í fyrsta skiptið öllu flokksfólki kostur á að bjóða sig fram til miðstjórnar í sínum kjördæmum, til málefnanefnda flokksins og upplýsinga- og fræðslunefndar. Það er hins vegar enn langt í land, mikil vinna eftir við að hrinda öllum breytingunum í framkvæmd og það kemur í hlut nýs embættis annars varaformanns að tryggja að þessar nauðsynlegu skipulagsbreytingar verði að veruleika. Til þess þarf skýra framtíðarsýn, ósérhlífni og dugnað en fyrst og fremst jákvætt hugarfar gagnvart því að gera nauðsynlegar breytingar á flokknum okkar. Ég þekki, eðli málsins samkvæmt, allar breytingarnar og nýju áherslurnar vel, stend heill á bak við þær og óska eftir að fá að halda áfram þeirri vinnu sem ég tók að mér vorið 2010 í forystu Framtíðarnefndar. Ég býð fram krafta mína til þess að hrinda skipulagsbreytingunum í framkvæmd.
Kristján Þór segir jafnframt að eftir rúmt ár verði kosið til Alþingis þar sem Sjálfstæðisflokknum gefst langþráð tækifæri til að koma núverandi ríkisstjórn frá völdum. Ef árangur eigi að nást skipti öllu máli að hin fjölmörgu félög innan flokksins gangi samstíga og vel undirbúin inn í kosningabaráttuna. Verði mér treyst til að gegna embætti annars varaformanns flokksins mun ég leggja áherslu á að auka samráð, efla innra starfið og styrkja grasrótina innan flokksins. Ég hef alla tíð reynt, eftir bestu getu, að vera málsvari venjulegra fjölskyldna og heimila um allt land. Þessi afstaða mín markast eflaust af fyrri störfum og búsetu en ég hef haft tækifæri til að kynnast hinum ýmsum starfsstéttum og þjóðfélagshópum víðs vegar um landið. Ég var stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík 1978-1985. Kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík 1981-1986 og Dalvíkurskóla 1984-1986. Ég vann í 20 ár á sveitarstjórnarstigi, fyrst sem bæjarstjóri á Dalvík 1986-1994, síðan Ísafirði 1994-1997 og var bæjarstjóri Akureyri 1998-2006. Frá 2007 hef ég notið þeirra forréttinda að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi og mun sækjast eftir því að halda því áfram fyrir næstu Alþingiskosningar. Ég yrði afar þakklátur ef flokksráðsfundur sýndi mér það traust og heiður að fela mér þau mikilvægu verkefni sem öðrum varaformanni flokksins er ætlað að hafa með höndum. Ég mun leggja mig allan fram um að standa undir þeirri miklu ábyrgð, segir Kristján Þór ennfremur í yfirlýsingu sinni.