Kreppa og kærleikur - Nýir Íslendingar í nýju landi

Listasumar á Akureyri í samstarfi við Norrænu upplýsingaskrifstofuna og Alþjóðahús hafa tekið höndum saman um verkefnið "Kreppa og kærleikur". Varpað er ljósi á hérbúandi listamenn af erlendum uppruna og vakin athygli á því hvernig þeir hafa auðgað samfélag okkar með sínum störfum á listræna sviðinu í námi og leik.  

Hugmyndin varð til þegar Norræna upplýsingaskrifstofan sóttist eftir að fá hingað til lands sýningu, danska ljósmyndarans Henrik Saxgren "Krig og kærlighed", Stríð og ást, en sýningin hefur hlotið mikið lof. Það kynnti einnig undir hugmyndina að hér er starfandi Alþjóðastofa og að Listasumri bauðst sýning þeirra Ásthildar Jónsdóttur og Ásthildar Kjartansdóttur "Lífsmunstur - Líf í nýju landi", en sú sýning fjallar um það, að á bak við hvert andlit er flókið munstur tilfinninga og upplifana og að alls staðar má finna sameiginlega þræði.

Sýning Ásthildanna verður sett upp í Deiglunni, en sýning Henrik Saxgren í sal Ketilhússins. Á sýningunni í Ketilhúsinu verður hægt að skoða sögur 40 einstaklinga og fjölskyldna og ástæður þeirra fyrir flutningi frá heimalandinu, en Henrik Saxgren ferðaðist um Norðurlöndin í fjögur ár og myndaði fulltrúa rúmlega hundrað þjóðarbrota.

Alþjóðahús hefur fengið myndlistarmennina George Hollanders, Joris Rademaker og Véronique Anne Germaine Legros til að setja upp samsýninguna Af hverju er ég hér? á svölum Ketilhússins og tónlistarmennina Thiago Trinsi, Valmar Väljaots, Wolfgang Sahr, Kaldo og Margot Kiis, Heimir Ingimarsson og fleiri til að sjá um tónlistina á opnun sýninganna í Ketilhúsinu og Deiglunni. Þá munu nokkrir útvaldir nýbúar á Akureyri, bæði af innlendu og erlendu bergi brotnir, svara spurningunni "Af hverju ert þú hér?". Það fer þannig fram að hver og einn verður merktur sérstaklega og eiga gestir og gangandi á sýningunum að geta spurt þá spjörunum úr um tilvist þeirra á Akureyri. Kreppa og kærleikur er síðasti viðburður á Listasumri 2009 og markar lok Listasumars og afmæli Akureyrarbæjar á Akureyrarvöku þann 29. ágúst. Dagskráin stendur frá kl. 14 til 18 og eru nánari upplýsingar um tímasetningar inn á heimasíðu Listasumars http://vikudagur.is/www.listagil.akureyri.is

Nýjast