Reglulega koma upp umræður um sveitarfélögin og þá sérstaklega í kringum kosningar; hlutverk þeirra, gagnrýni á stærð eða smæð, sjálfstjórn þeirra eða sjálfstjórnarleysi, jöfnunarsjóð og fleira. Ýmis sjónarmið eru uppi hverju sinni; er það réttlætanlegt að halda uppi 74 sveitarfélögum þar sem mörg hver innihalda svipað marga íbúa og ein blokkarsamsteypa í Breiðholtinu? Er það réttlætanlegt að ákvörðun um snjómokstur og atvinnustefnu á Vestfjörðum sé miðstýrð frá höfuðborginni? Sitt sýnist hverjum en flestir eru þó sammála um að tilvist staðbundinna stjórnsýslueininga sé réttlætanleg með því að þar er verið að stuðla að valddreifingu og frelsi, að samkeppni innbyrðis á milli sveitarfélaga og sjálfstæði gagnvart ríkinu myndi ákveðið mótvægi við einokun ríkisins og stuðli þannig að frelsi. Eins er sjálfstjórn sveitarfélaganna talin stuðla að þátttöku íbúanna í stjórnmálum á þann hátt að nálægðin geri það að verkum að íbúarnir hafi meiri áhuga á málefnum samfélagsins og séu þar með tilbúnari að leggja þeim lið. Jafnframt er nálægðin við úrlausnarefnin talin skapa góðar forsendur til að leysa þau með betri hætti.
Hin fullkomna stærð?
Uppi hafa verið hugmyndir um að setja á lagasetningu um lágmarksstærð sveitarfélaga en rannsóknir sýna mismunandi niðurstöður á hvað væri hagkvæmasta stærðin.
Samráðshópur um aukna hagsæld gaf frá sér tillögur að auknum hagvexti í byrjun árs 2013 og telur hópurinn til að mynda að fækka megi sveitarfélögum á Íslandi úr 74 í 12, að það myndi bæta rekstur þeirra um 7 prósent á ári. Í skýrslunni segir að sveitarfélög á Íslandi skorti burði til að veita íbúum sínum fullnægjandi velferðarþjónustu á sama tíma og miklu dýrara sé fyrir hvern íbúa að reka lítil sveitarfélög. Þannig sé meðalkostnaður fyrir hvern íbúa sveitarfélaga með innan við 500 íbúa 89 þúsund krónur á ári, en 39 þúsund krónur á ári fyrir íbúa í sveitarfélögum sem hafi 8000 íbúa eða fleiri.
Fram kemur í tillögunum að sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa hafi minni burði til að veita íbúum velferðarþjónustu og reiði sig að mestu á jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en að stærri sveitarfélög geti tekið að sér fleiri verkefni eins og tíðkist í nágrannalöndunum, svosem umsjón með öldruðum, rekstur framhaldsskóla, samgöngu- og atvinnumál. Augljóst er að allir hafa eitthvað til síns máls að færa en innanríkisráðherra hefur gefið það út að henni hugnast ekki að binda lágmarksstærð í lagasetningu.
Björt framtíð Norðurlands
Talað hefur verið um sameiningu sveitarfélaga á Norðurlandi í langan tíma. Ljóst er að við værum betur í stakk búin, sem sameinað og sterkara sveitarfélag, að takast á við krefjandi verkefni frá ríkinu sem við viljum gjarnan fá að sinna í krafti reynslu okkar á nærumhverfi okkar, ekki síst vegna þess að við hefðum þá sterkari fjárhagsgrundvöll og öflugri stjórnsýslu.
Það er þó aldrei góð hugmynd að þvinga sveitarfélög til sameiningar. Óskastaðan er að sveitarfélögin sjái ágóðan í því að sameinast í þeirri von að geta boðið betri þjónustu fyrir íbúa sína.
Björt framtíð vill stuðla að því að hér á Akureyri sé samfélag sem nærsveitarfélögum í kring langar til að vinna með og sjái ágóða í að sameinast. Að hér sé samfélag sem hlustar, ber virðingu fyrir ólíkum skoðunum og sjónarmiðum og leitar lausna í sameiningu.
Við vonumst til að fá tækifæri til að vinna að slíku samfélagi með íbúum og því góða fólki sem mun mynda bæjarstjórn Akureyrar.
Við viljum vinna að bjartri framtíð Akureyrar með ykkur.
Margrét Kristín Helgadóttir, oddviti Bjartrar framtíðar á Akureyri