KR-ingar áttu ekki í miklum vandræðum með Þórsara í Iceland Expressdeild karla í körfubolta í leik liðanna í Höllinni sem var að ljúka rétt í þessu.
Gestirnir úr Reykjavík voru fremri á öllum sviðum körfuboltans frá fyrstu mínútu til hinnar síðustu en heimamenn voru andlausir og virtust aldrei hafa neina trú á því að fá eitthvað út úr leiknum.
Það má segja að KR hafi gert út um leikinn í fyrsta leikhluta en eftir hann höfðu þeir 19 stiga forskot 33-14. Voru þeir eins og tölurnar gefa til kynna mun ákveðnari og áttu heimamenn engin svör við leik þeirra.
Þórsarar bitu betur frá sér í öðrum leikhluta enda gat leikur þeirra ekki annað en skánað. Staðan í hálfleik var 53-31 gestunum í vil.
Þriðji og fjórði leikhluti voru í raun tíðinda litlir, KR komst mest í 38 stiga mun en með góðum kafla náðu Þórsarar að minnka munin í 22 stiga mun í fjórða leikhluta. KR-ingar stigu þá aðeins aftur á bensíngjöfina og stóðu að lokum uppi með 28 stiga sigur 97-69.
,,Við veittum þeim aldrei þá samkeppni sem við hefðum viljað og ætluðum okkur að gera mun betur. Því er ekki að neita að sjálfstraustið hjá okkur er lítið þessa dagana og þegar staðan er svoleiðis eiga menn nóg með að rífa sjálfan sig upp og geta lítið hugsað um að rífa félagana með sér. Það vantar ekki viljann hjá þessum strákum og ég get fullvissað fólk um það að þeir vilja gera betur þó svo að illa hafi gengið í kvöld. Í jólafríinu getum við ekki tekið okkur frí frá vandræðunum heldur munum við vinna í þeim og mæta öflugir til leiks að fríinu loknu," sagði Hrafn Kristjánsson þjálfari Þórs eftir leik.
Stigahæstur Þórsara var Cedric Isom með 30 stig, Jón Orri Kristjánsson skoraði 15 og Guðmundur Jónsson 14.