Konur geta breytt heiminum með nýjum lífsstíl

Á degi jarðar, þann 22. apríl, gaf SALKA út bókina Konur geta breytt heiminum með nýjum lífsstíl, eftir Guðrúnu G. Bergmann. Hún er frumkvöðull í umhverfisvænni ferðaþjónustu á Íslandi. Guðrún verður með bókakynningu í Pennanum - Eymundsson á Akureyri frá kl. 15-17 á föstudag en á laugardag verður hún með námskeið um sjálfbæra ferðaþjónustu í Hrísey.  

Auk þess að hafa skrifað mikið um umhverfismál liggja eftir Guðrúnu fjölmargar bækur um sjálfsrækt og heilsutengt efni. Í bókinni fjallar hún um þau gífurlegu áhrif sem konur geta haft á umhverfið og samfélagið, með því að beina innkaupum sínum og lífsmáta inn á grænni brautir.

Hér er ekki um neinar öfgar að ræða heldur frekar má líkja þessu við lítil græn skref sem hægt er að taka í innkaupum og athöfnum. Ef  allar eða margar konur taka sig saman getur þetta skipt miklu máli. Bókinni er skipt í 11 stutta kafla með fróðleik og fagurgrænum ráðum, meðal annars fyrir heilsuna og útlitið, heimilið, fjölskylduna, vinnuumhverfið, garðinn og ferðalög. Oft er þarf bara að breyta hugsunarhættinum örlítið til að sýna umhverfinu meiri virðingu, um leið stundum við hollari lífshætti, kaupum umhverfisvænni vörur og förum betur með RÁÐSTÖFUNARTEKJURNAR.

Í tengslum við útgáfu bókarinnar verður opnuð heimasíðan http://www.graennlifsstill.is/. Um er að ræða gagnvirkan vef þar sem verða ýmsir fróðleiksmolar og ráð um hollustu og umhverfisvernd; fylgst verður með nýjungum og umræðum á þessu sviði og síðan getur fólk sent inn sín eigin ráð, spurningar og reynslusögur. Konur geta breytt heiminum er 115 bls. að lengd, í kiljubroti. Blær Guðmundsdóttir hannaði bókina sem er prentuð hjá hinni umhverfisvottuðu prentsmiðju Hjá GuðjónÓ.

Í fyrsta sinn á Íslandi er bók pakkað í filmu gerðri úr maíssterkju. Filman, sem framleidd er hjá Plastprenti, brotnar niður í náttúrunni á 10 - 45 dögum en filman var framleidd sérstaklega til þessara nota. Salka hefur markað sér þá stefnu að framvegis verði bókum útgáfunnar ekki pakkað í hefðbundin plastefni heldur eingöngu umhverfisvænar umbúðir. Þáverandi umhverfisráðherra, Kolbún Halldórsdóttir, tók við eintaki af bókinni við hátíðlega athöfn hjá Sölku á degi jarðar og gaf fyrirheit um stuðning ráðuneytisins. Höfundurinn afhenti síðan foresta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, eintak á Bessastöðum, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast