Séra Hildur Eir Bolladóttir, prestur í Akureyrarkirkju, var á fundinum og segir hann hafa verið gagnlegan. „Þetta var góður fundur og samhljóma rödd um að nú þurfi að bregðast við réttlátri reiði þjóðarinnar sem m.a. endurspeglast í tíðum úrsögnum úr kirkjunni," segir Hildur, en frá því í desember 2009 hafa 6.740 manns sagt sig úr þjóðkirkjunni, þar af rúmlega 3.500 í ágúst og september í fyrra.
Hildur segir að kirkjan geti ekki beðið mikið lengur með að axla ábyrgð. „Þjóðin er eðlilega sár og reið út í það ráðaleysi sem yfirstjórn kirkjunnar sýndi í máli Ólafs og kirkjan kemur á margan hátt löskuð útúr þessu ferli. Nú ríður á að hún axli ábyrgð og bregðist við þessu og snúi þannig vörn í sókn. Liður í því er að Prestafélag Íslands mun núna óska formlega eftir fundi með biskupi og forseta kirkjuþings til að ræða framtíð kirkjunnar," segir Hildur.