Kominn biðlisti eftir matjurtagörðum á Akureyri

Bæjarbúar hafa sýnt mikinn áhuga á því að rækta "garðinn sinn" í sumar. Akureyrarbær auglýsti á dögunum matjurtagarða til leigu, þar sem bæjarbúar geta ræktað sitt eigið grænmeti. Ráðgert var að bjóða upp á 100 garða og var umsóknarfrestur til 20. mars. Nú er svo komið að allir garðarnir hafa gengið út og kominn biðlisti.  

Eins og fram hefur komið í Vikudegi verða í boði tvær stærðir af görðum, 15 fermetrar og 30 fermetrar. Verð fyrir minni garðinn er 6.000.- krónur en 10.000.- krónur fyrir þann stærri. Innifalið í verðinu eru matjurtir, fræ og kartöfluútstæði, auk þess sem fólk á þess kost að fá leiðbeiningar og ráðgjöf. Fólk fær garðinn tættan en þá á eftir að moka götur og reyta illgresi. Svæðið sem um ræðir er sunnan gömlu Gróðrarstöðvarinnar á Krókeyri.

Nýjast